148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé bara ekki neina meinbugi á því að umhverfisráðuneytið væri úti á landi, hvort sem væri á Akureyri, Ísafirði eða Egilsstöðum, og útvistaði störfum hingað til Reykjavíkur til að halda jafnvægi í byggð landsins. En stundum er það nú þannig að það er lengra til Akureyrar frá Reykjavík en frá Akureyri til Reykjavíkur og það á við um marga staði úti um land. Því miður hafa verið mikil tregðulögmál í þessu sambandi í gegnum árin þó að maður eigi ekki eingöngu að kenna embættismönnum í ráðuneytum um. Það eru auðvitað pólitískir stjórnmálamenn hverju sinni sem bera að lokum ábyrgð á því hvað gert er. En ég held að við hefðum í gegnum tíðina getað gert miklu betur. Það er þensla á höfuðborgarsvæðinu. Ef allt gengur eftir sem horfir, að við séum á góðum stað í efnahagsmálum, verður áfram þensla á höfuðborgarsvæðinu og næg atvinna. Við þau skilyrði eigum við frekar að draga saman seglin þar sem hægt er að gera það á höfuðborgarsvæðinu þar sem störf geta verið án staðsetningar hjá hinu opinbera, í raun og veru hvar sem er miðað við nútímatækni. Þannig vil ég að stjórnmálamenn hugsi og leggi ekki bara fram gott byggðaáætlunarplagg eins og hér liggur fyrir heldur fylgi því af festu eftir, hver í sínu ráðuneyti. Það ætti að vera einhver vottun í lok hvers árs um það hver gerir best í þessum efnum hjá hvaða ráðuneyti. Fengi jafnvel vildarpunkta frá þinginu til að fara út á land í frí. (Gripið fram í.)