148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:53]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil líkt og hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra byrja á að fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 sé komin fram. Það er fátt mikilvægara fyrir byggðir landsins en að vera með sterka og skýra byggðaáætlun og ég veit að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur mikinn metnað til að horfa til byggða landsins.

Því hefði verið gleðilegt að standa hér og fagna sömuleiðis öllu innihaldi þessarar framlögðu tillögu en þó að hér séu fjölmörg góð markmið og aðgerðir listaðar er tilfinningin svolítið eins og hér sé um hálfklárað skjal að ræða. Þannig skortir örlítið á innra samræmi í áætluninni og raunar er eins og hún sé skrifuð af mörgum ólíkum einstaklingum, sem er í sjálfu sér mjög jákvætt, en enginn hafi í raun lesið skjalið í heild með það í huga að samræma innihaldið. Þannig er til að mynda ekki samræmi í orðalagi markmiða á milli kafla og ný markmið birtast í verkefnakaflanum án þess að vera nefnd í markmiðakafla og raunar öfugt, markmið í markmiðakafla án þess að sett séu fram verkefni eða aðgerðir til að vinna að viðkomandi markmiðum, eins og til að mynda markmiði e-liðar A-hluta um að hvatt verði til notkunar fjölbreyttra, sjálfbærra samgöngumáta, svo sem göngu og hjólreiða, sem ég sé fyrir mér að gæti verið óskaplega skemmtilegt, sem dæmi að skreppa milli Akureyrar og Ísafjarðar. Það sem e.t.v. er alvarlegra er markmið n-liðar sama hluta sem er að öruggir sjúkraflutningar um allt land verði tryggðir — en engar aðgerðir er að finna þar. Mögulega er það viljandi gert en því miður er það hvernig þetta er gert og orðað til þess fallið að vekja a.m.k. spurningar.

Byggðastefna ætti, og er vonandi í hugum margra, að vera alger grundvallarstefna í starfi ríkisins. Því verð ég að viðurkenna að það er nokkuð sérstakt að vera hér að ræða byggðastefnu nú en samgönguáætlun ekki fyrr en í haust. Þá hefur aðgerðaáætlun fjarskiptaáætlunar ekki verið endurnýjuð en hún rann út árið 2014 sem augljóslega hefur töluverð áhrif í umræðu um byggðamál. Sömuleiðis mætti horfa til fleiri áætlana þó að þessar séu skiljanlega þær sem koma fyrst upp í hugann. Helst vildi ég að við værum að ræða þær allar núna enda mikilvægt að þessar áætlanir haldist vel í hendur og að við horfum á þær heildstætt en mitt mat er að ef vel væri að verki staðið gætu þessar áætlanir unnið gríðarlega vel saman að uppbyggingu byggða landsins.

Það er þó gott að stefna um uppbyggingu raforkukerfisins sé í umræðu í þinginu samhliða þessu máli en nokkuð er komið inn á uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis raforku í þeirri tillögu að byggðaáætlun sem við ræðum og mikilvægt að þær séu skoðaðar saman. Þannig held ég að æskilegt væri og gagnlegt — það væri reyndar gaman ef formaður umhverfis- og samgöngunefndar væri hér að hlusta á umræðurnar — ef hv. umhverfis- og samgöngunefnd óskaði hreinlega eftir umfjöllun og umsögnum annarra fagnefnda þingsins um fyrirliggjandi þingsályktunartillögu, enda er þarna verið að fjalla um verkefni og stefnur í málaflokkum sem snerta flestar, ef ekki allar, fagnefndir þingsins.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér eru fjölmörg góð markmið og verkefni. Þannig fagna ég því að heilbrigðis- og velferðaráætlanir eigi að fá þinglega meðferð sem opinberar áætlanir og að grunnþjónusta heilbrigðis- og velferðarþjónustu verði skilgreind sem og hvernig réttur landsmanna til hennar verði tryggður óháð búsetu. Ég held að það sé virkilega mikilvægt að þetta sé skýrt og ákveðið en ég sakna þess hins vegar að aðgerð um þetta markmið sé skilgreint í aðgerðakafla tillögunnar og ábyrgð á framkvæmd þess skilgreind.

Ég fagna því að vinna eigi stefnu um opinbera þjónustu með það að markmiði að íbúar landsins, óháð búsetu, njóti sama aðgengis að grunnþjónustu. Ég verð þó að telja verkefninu ansi naumt skammtaða fjármögnun, gert er ráð fyrir 3 millj. kr. úr byggðaáætlun til þessa verkefnis sem ætlað er að taki heil þrjú ár að vinna.

Þá er ánægjuleg sú áhersla sem hér kemur fram á orkumál, eins og fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á, þó að þau mættu sannarlega vera betur skilgreind og vera með mælanlegri markmið — eða með mælanleg markmið yfir höfuð. Sömuleiðis mættu þau vera með skilgreinda og tilgreinda fjármögnun. Þar á er þó undantekning í aðgerð B.1., um þrífösun rafmagns, þar er tillaga um 400 millj. kr. úr byggðaáætlun sem er vel.

Það veldur mér þó nokkru hugarangri hversu loðið orðalag tillögunnar er. Það á að „skoða“ og „kanna“ í stað þess einfaldlega að framkvæma. Vonandi verður þó hægt að nýta fjármagnið sem þarna er skilgreint til að framkvæma fremur en að 400 millj. kr. fari einfaldlega í könnun.

Eins og ég kom inn á í andsvari finnst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá bæði markmið og aðgerðir í því að jafna aðstöðumun á millilandaflugvöllum og vinna tillögu og vonandi koma á verðjöfnun á flugvélaeldsneyti á millilandaflugvöllum landsins. Það er verulega sérstakt hvernig ástandið er í dag. Vonandi verður þetta til þess að við sjáum raunverulega breytingu þar á, jafnvel í lok þessa árs ef ég leyfi mér að vera bjartsýn.

Að lokum var tvennt sem vakti athygli mína strax við fyrsta yfirlestur og ég hef komið lítillega inn á áður. Það fyrra er skortur á mælikvörðum um árangur bæði í markmiðakafla og verkefnakafla og sömuleiðis upplýsingar um fjármögnun einstakra aðgerða sem er, með fullri virðingu, nokkuð kaldhæðnislegt með tilliti til þess að í fyrsta lið greinargerðar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Þegar meta á árangur byggðaáætlunar takmarkast árangursmat af því að áætluninni fylgja ekki mælikvarðar um árangur nema að mjög takmörkuðu leyti. Þá eru upplýsingar um fjármögnun einstakra aðgerða mjög takmarkaðar. Því er helsti mælikvarði hvort einstakar aðgerðir hafi komist í framkvæmd.“

Í lok þessa sama kafla segir svo, aftur með leyfi forseta:

„Við mótun þeirrar tillögu sem hér er sett fram var leitast við að taka mið af þessari reynslu.“

Af 54 tillögum er ríflega helmingur, 30 tillögur, í aðgerðaáætlunarhluta þingsályktunartillögunnar sem skilgreinir ekki mælanleg markmið og 24 tillögur, rétt tæpur helmingur, eru ekki með upplýsingar um skilgreinda fjármögnun heldur eingöngu vísað í viðkomandi ráðuneyti.

Hvað mælikvarða um árangur í markmiðakafla varðar eru þeir aðeins tveir í hverjum hluta, sex samtals, og eru í fyrsta lagi mjög óljósir og í öðru lagi hreinlega ekki í fullu samræmi við þau markmið sem þar eru sett fram.

Hið síðara sem svo vakti athygli mína í tengslum við aðgerðaáætlunina er hversu mörg verkefni þar eru nefnd sem í raun eru nú þegar hafin eða vinna við þau jafnvel langt komin. Samt sem áður er talin þörf á að taka jafnvel fimm til sjö ár í að vinna þau. Ég held að meira gagn væri í að setja inn ný verkefni og hefði ég gjarnan viljað sjá meiri nýsköpun í nálgun að byggðaáætlun og ef út í það er farið meiri áherslu á nýsköpun yfir höfuð, t.d. matvælaframleiðslu og landbúnað.

Þarna eru nokkur verkefni og markmið sem snúa að því að „meta“ eða „vinna að“ einhverju í stað þess einfaldlega að fara að vinna að framkvæmd verkefna. Það væri nær en að eyða meiri tíma í að spá og spekúlera.

Kannski má skilja ræðu mína sem svo að ég sé neikvæð gagnvart framlagðri þingsályktunartillögu. Ég vil árétta að ég er það í rauninni alls ekki og ítreka ánægju mína með að hún sé komin fram og sé hér til umræðu. Mér fannst hins vegar rétt að nýta þetta tækifæri þar sem ég sit ekki í umhverfis- og samgöngunefnd til að fara mjög stuttlega yfir allra helstu atriðin sem vöktu athygli mína og ítreka á ný hugmynd mína um að hv. umhverfis- og samgöngunefnd leiti til fagnefndanna og óski eftir umfjöllun þeirra um þessa þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun þar sem ég tel sérstaklega mikilvægt að þessi stefna verði vel unnin og nái sínu stærsta markmiði, því sem við hljótum öll að vera sammála um, þ.e. að styrkja byggðir landsins um allt land.