148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:42]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að ræða hér um þingsályktunartillögu um byggðaáætlun til ársins 2024. Ég er nú þannig gerður að ég hefði nálgast viðfangsefnið pínulítið öðruvísi en hæstv. ráðherra en það kemur kannski ekki á óvart. Ég hefði nefnilega kosið að það væri eitt orð sem væri rauði þráðurinn í gegnum alla byggðaáætlunina, eitt orð og það er orðið valfrelsi. Ég endurtek: valfrelsi.

Að gefa fólki raunverulegt val til að ákveða hvar það vill setjast að — ungt fólk að snúa heim, flytja í sína heimabyggð o.s.frv. Það er auðvitað þannig, og það á ekki bara við í byggðastefnu, að við eigum að hafa það sem rauðan þráð í öllu sem við gerum hér á Alþingi að auka valfrelsi borgaranna. Að þessu sögðu er líka ljóst að því miður minnir saga okkar, þegar kemur að byggðamálum og byggðastefnu, fremur á leiðina til glötunar sem er þó vörðuð góðum ásetningi. Þar eru allir stjórnmálaflokkar undir sömu sök seldir. Við tölum hér um að styrkja byggð í landinu og okkur hafa í mörgu verið mislagðar hendur. Það eru þó gleðifréttir sem berast núna um að í fyrsta skipti í 150 ár er fólki að fjölga á landsbyggðinni. Við skulum halda því til haga að fólki er að fjölga á landsbyggðinni, eða þar sem við tölum um landsbyggð, þó að einstök byggðasvæði og byggðakjarnar kunni enn að þurfa að glíma við erfiðleika.

Það er rótgróin skoðun í þessum þingsal, sem og líklegast víðast í samfélagi okkar, að ríkið og ríkisvaldið leiki algjört lykilhlutverk þegar kemur að stefnu í byggðamálum. Ásetningurinn er góður og ég ætla ekkert að efast um hann en ég held að við höfum lært dálítið harða lexíu á undanförnum áratugum. Við höfum sóað sameiginlegum fjármunum í nafni byggðasjónarmiða. Ég get til dæmis nefnt að ég hef miklar efasemdir um að tilgangur byggðakvóta hafi náðst, fremur dregið úr hagkvæmni sjávarútvegsins í heild sinni. Sá kostnaður er auðvitað greiddur af íbúum sveitarfélaga þar sem rekin er hagkvæm og öflug útgerð og vinnsla.

Þegar aðgerðir í byggðamálum bregðast þá grípum við til töfraorðsins „að flytja stofnanir út á land“, sem í mínum huga er líklegast versta byggðastefna sem um getur. Ég ætla nefnilega að halda því fram að ný byggðastefna eigi fyrst og fremst að felast í því að fjárfesta í innviðum samfélagsins: góðum samgöngum, öflugu fjarskiptakerfi og háhraðaneti; tryggja öfluga heilbrigðisþjónustu, góða menntun og sterka löggæslu. Ég hygg að það sé besta byggðastefnan. Við eigum að átta okkur á því að byggðastefna verður ekki mörkuð öðruvísi en að hafa það sem meginforsendu að hér sé rekinn arðvænlegur, öflugur sjávarútvegur og skilvirkur og lífvænlegur landbúnaður. Þannig getur byggðastefna framtíðarinnar ekki falist í ofurskattheimtu á sjávarútveg. Hún getur ekki falist í ofstjórn í landbúnaði þar sem dugmiklum bændum er haldið niðri, eða misheppnuðum búvörusamningum og þá vísa ég fyrst og fremst til sauðfjárhluta þeirra; við getum haldið langar ræður um það.

Við eigum líka að segja: Við erum fámenn þjóð og við höfum ekki efni á því að reka dýrt og stórt stjórnkerfi. Við eigum nefnilega að reka hófsemd í skattamálum, við eigum að einfalda regluverk atvinnulífsins og ýta þannig undir að lítil og meðalstór fyrirtæki verði til, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur ekki síst úti á landi. Hófsöm skattheimta og einfalt regluverk er líklegast mikilvægara fyrir athafnamanninn úti á landi en hér á höfuðborgarsvæðinu sem hefur þó þann möguleika að glíma við kerfið í nágrenni sínu. Við þurfum að tryggja að höfuðborgarsvæðið sogi ekki alla fjármuni til sín af landsbyggðinni. Til þess eins að við hér í þessum sal, með aðstoð og hjálp og ráðleggingum embættismanna, úthlutum síðan peningunum aftur til baka.

Ég held að við eigum að hleypa súrefninu út á land með athafnafrelsi, aukinni samkeppni. Við eigum að úthýsa opinberum verkefnum, við eigum að bjóða þau út. Ég hygg að það sé fátt sem við gætum gert betra við að styrkja byggðir í landinu, eins og Vegagerðin er gott dæmi um. Þegar Vegagerðin hóf að bjóða út verklegar framkvæmdir urðu til litlir sjálfstæðir verktakar sem margir hverjir eru stórir og öflugir, fengu að njóta sín, vegna þess að menn ákváðu að úthýsa verkefnum á vegum ríkisins. Ekki færa ríkisstofnunina Vegagerðina út á land þó að hún væri með útibú, heldur fyrst og fremst að færa verkefnin í hendur heimamanna þannig að þeir gætu búið til sín stöndugu fyrirtæki o.s.frv.

Það er margt í þessari tillögu til þingsályktunar sem er gott. Ég geri mér grein fyrir því. Og það kemur einmitt að innviðunum, því sem fær hjartað til að slá hraðar og er vel í takt við hæstv. ráðherra, þegar talað er um störf án staðsetningar. Ég held nefnilega að það sé kominn tími til þess að við förum að losna úr hlekkjum hugarfarsins, að við hættum að hugsa um stofnanir sem steinsteypu hér í 101 eða einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu með lögheimili hér og förum að hugsa um þá þjónustu og þau verkefni óháð staðsetningu. Það er nefnilega þannig að stóran hluta þeirra verkefna sem unnin eru hér á höfuðborgarsvæðinu er í raun hægt að vinna hvar sem er svo lengi sem fólk hefur aðgang að háhraðaneti, ljósleiðaraneti og tengingu. Þess vegna hefur það skipt verulega miklu máli, enda stöndum við nú — hæstv. ráðherra, ég ætla að óska þér til hamingju með alþjóðlega viðurkenningu sem við fengum öll, þó að þú hafir tekið við henni fyrir okkar hönd. Það er vert að halda því til haga sem vel er gert.

Ég hef síðan efasemdir um það þegar menn tala hér um að byrja að vera með einhver millifærslukerfi um jöfnun á flutningskostnaði vegna verslunar o.s.frv. Við skulum sjá hvernig sú útfærsla er en meginatriðið er auðvitað að við förum að virkja athafnafrelsi og gefa fólki valfrelsi, raunverulegt valfrelsi, til að ákveða sína eigin búsetu. Þá skiptir kannski máli hvernig við nálgumst verkefnið og hugsum verkefni ríkisins út frá nýjum hugmyndum.