148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir. Fjármálaáætlunin er til meðferðar, það er ekki búið að samþykkja hana (Gripið fram í.) — allt í lagi, ég skil það, ég ruglast sjálfur. Ég held að þetta sé hins vegar blanda af tvennu. Annars vegar að gæta almennrar hófsemi, m.a. í gjaldtöku af sjávarútvegi, en líka að regluverkið sé einfalt.

Það skiptir máli að við séum ekki að byggja hér upp flókið eftirlitskerfi þannig að bændur — af því að ég horfi hér á hæstv. félagsmálaráðherra sem þekkir það vel — fái reglulega heimsóknir frá hinum og þessum eftirlitsaðilum. Ég held að hægt væri að einfalda það og draga verulega úr kostnaði með því að skella eftirlitsstofnunum í matvælaiðnaði saman í eina stofnun, þannig að menn væru ekki að eyða tímanum í það. Punkturinn er þessi: Það er erfiðara og dýrara fyrir fyrirtæki úti á landi að fylgja öllu því regluverki sem er í gildi — ég tala ekki um ef þau þurfa að fá leiðréttingu mála sinna — en sambærileg fyrirtæki hér á höfuðborgarsvæðinu. Það segir sig sjálft að nálægðin skapar í sjálfu sér ákveðna hagræðingu, ekki bara í flutningi heldur hagræðingu þegar kljást þarf við kerfið.

Þess vegna skiptir það landsbyggðina meira máli og er mikilvægara að við gætum ekki bara hófsemdar í skattheimtu heldur líka í öllu regluverkinu sem gildir í íslensku atvinnulífi. Ég held að það skipti höfuðmáli.