148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það líður nú hratt að lokum þessa fyrri hluta umræðu um tillögu til þingsályktunar um stefnumótun í byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Þetta er metnaðarfull áætlun. Það er bjart yfir þessari áætlun og vorhugur í hæstv. ráðherra sem leggur þessa tillögu fram nú í blábyrjun sumars — sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn.

Markið er sett hátt. Það á að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land svo að eitthvað sé nefnt. Landið allt á að verða í blómlegri byggð og Ísland á að vera í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og öflug sveitarfélög. Þetta eru góðar fréttir. Það er góður tónn í þessu og við eigum að leggjast á eitt um að þetta verði að veruleika, þetta verði ekki orðin tóm. Það er í valdi okkar, Alþingis, að leggja okkar lóð á vogarskálarnar.

Í þessari áætlun er víða komið við og hv. þingmenn hafa talað hér í kvöld af þekkingu, reynslu og innsæi um málefni landsbyggðarinnar. Og það er bara vel. Það á að bæta þjónustu á flestum sviðum og það á að bæta aðgengi að grunnþjónustunni. Það á að jafna orkukostnað fyrir landsmenn, það á að efla menntun úti á landi og börn og ungmenni eiga að fá aðgang að menningu og listum óháð efnahag og staðsetningu. Þetta eru háleit markmið.

Ég ætla að drepa niður fæti í málaflokki sem mér er hugleikinn sem eru velferðar og heilbrigðismál. Í áætluninni segir að heilbrigðis- og velferðaráætlanir fái þinglega meðferð sem opinberar áætlanir. Þetta er mjög mikilvægt atriði og vonandi næst í gegn að marka heilbrigðismálunum, velferðarmálunum, aukinn sess og marka stefnu um þessi mál fyrir alla landsmenn. Eftir því hefur verið lýst, þessa söknum við og ég held að í þessu felist mikil tækifæri fyrir alla landsmenn. Hv. þingmenn sem hér hafa talað í kvöld hafa talsvert rætt um uppsetningu á þessari áætlun og sitt sýnist hverjum. Mér finnst ánægjulegt að sjá að menn hafa hér uppi viðleitni til að setja verðmiða á þjónustuna, hvernig menn ætla að framkvæma þetta. En það er ekki í öllum tilvikum, það er í nokkrum tilvikum og eins og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir kom inn á er kannski innra misræmi í uppsetningunni. Við tökum viljann fyrir verkið. Við viljum landsbyggðinni það besta og nú leggjumst við á árarnar.

Varðandi heilbrigðisþjónustuna er tæpt hér á fjarheilbrigðisþjónustu, að við förum að nýta okkur aukna tækni í samskiptum. Í þennan málaflokk á að verja 140 milljónum en ekki er gott að átta sig á því hvort þetta er sú heildarfjárhæð sem á að fara í málaflokkinn á þessu tímabili eða hvort þetta er stofnkostnaður. Ef þetta er stofnkostnaður þá er það svo sem vel. Þetta dugar fyrir þessum tæknilega búnaði í landsfjórðungana. Varðandi menntun heilbrigðisstarfsmanna er hér gefið undir fótinn með að mennta lækna til að starfa sérstaklega úti á landsbyggðinni. Þetta er ekki ný hugmynd, hún hefur sennilega verið í umræðunni í tvo áratugi og það er svo sem vel. Við þurfum bara að raungera þessar áætlanir. Þetta á ekki bara við um lækna. Þetta á við um aðrar heilbrigðisstéttir líka. Ég þreytist ekki á að nefna hið mikilvæga hlutverk sem hjúkrunarfræðingar hafa á landsbyggðinni. Þeir eru iðulegast límið í þjónustunni vítt og breitt um landið. Við þurfum að gera þeim kleift að takast á við aukna ábyrgð, víða úti á landi. Ekki er útlit fyrir það að við getum fjölgað heilsugæslulæknum eða horfið frá því fyrirkomulagi sem við höfum kannski alist upp við.

Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason gerði fæðingarþjónustuna að umtalsefni og þær breytingar sem eiga sér stað varðandi þá þætti. Ég tek svo sem undir viðhorf hæstv. ráðherra, við gerum orðið miklar kröfur til mæðraverndar og fæðingarþjónustu eins og annarrar heilbrigðisþjónustu. Fólk á landsbyggðinni gerir ekkert síðri kröfur til öruggrar heilbrigðisþjónustu en aðrir landsmenn. Þekking á þáttum mannlífsins sem lúta að heilbrigðisþjónustu og mannslíkamanum, og raunar bæði til líkama og sálar, skulum við segja, hefur aukist og við erum í allt annarri stöðu en fyrir tveimur, þremur áratugum. Það sem gerir þetta ójafnvægi hvað áþreifanlegast úti á landi er auðvitað þegar konur þurfa að fæða börn sín fjarri heimabyggð. Þá fer öll tilveran úr skorðum og fólk þarf að taka sig upp og flytjast búferlum, kannski svo vikum skiptir í annan landsfjórðung. Það er þá oft bæði barn eða börn sem fylgja og jafnvel maki. Hér er tæpt á því að settar verði reglur um það hvernig beri að styrkja fjölskyldur sem búa við þetta hlutskipti. Það er vel og það þarf að raungera. Það er ekki gert og það er í skötulíki í dag.

Sömuleiðis er tekið hér á geðheilbrigðisþjónustu sem hefur verið mjög til umræðu að undanförnu. Hér er það fært í orð að við ætlum að setja upp geðheilbrigðisteymi um allt land. Það er mjög gott og endurspeglar auknar áherslur í geðheilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu. Og það á að ná til allra aldurshópa, allt frá börnum og til eldra fólks, ungs fólks í framhaldsskólum og háskólum og fólks sem býr við þroskahömlun, fólks með áfengis- og vímuvanda, svo að eitthvað sé nefnt. Gert er ráð fyrir því að geðheilbrigðisteymi verði komin í alla landsfjórðunga árið 2019. Sömuleiðis á að efla sérfræðilæknisþjónustuna úti á landi og það þarf að skilgreina það með skýrum hætti. Við höfum auðvitað miklar væntingar til þess að ný heilbrigðisstefna taki á þessu og kostnaðargreini því að við þurfum á lykilheilbrigðisstofnunum að halda í öllum landsfjórðungum.

Það er ekki nóg að lýsa því yfir í orði, það þarf að gera þeim kleift að starfa á eðlilegum forsendum í öllum þessum landsfjórðungum. Menn hafa tæpt á því í kvöld, hv. þingmenn, að flytja til störf og rætt um störf án staðsetningar. Það er nú eitt af markmiðum þessarar ríkisstjórnar, og það er tiltekið í stjórnarsáttmála, að fjölga þessum möguleikum. Ég get ekki tekið undir það með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að það séu hin hefðbundnu störf sem skjóti fyrst og fremst rótum og fótum undir byggð í landinu. Það verður að viðurkennast og reynslan sýnir það að opinber störf eru kjölfesta víða úti á landi og þau skapa fjölbreytileikann. Það er nú svo að báðir fjölskyldumeðlimir, bæði maður og kona í flestum tilvikum, eru orðnir sérhæfðir starfsmenn og vilja störf við hæfi.

Samgöngumál hafa líka verið rædd. Ég er óþreytandi að nefna að við þurfum að búa til einhvern farveg fyrir ferðamenn inn í þetta land, aðra en bara þjóðvegina. Við þurfum að huga að því að efla flugsamgöngur frá fleiri stöðum en bara Reykjavík eða Keflavík, í minna mæli Egilsstöðum og Akureyri. Við þurfum að hugsa fyrir góðum flugvelli í Norðvesturkjördæmi á miðsvæði Vestfjarða. Það verður hugsanlega hægt á þriðja áratug þessarar aldar.

Herra forseti. Ég er búinn með minn tíma og þakka fyrir þessar góðu umræður. Ég vonast til að fá að taka þátt í seinni umræðu.