148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn Ég held að við höfum mýgrút af ónotuðum tækifærum þarna. Mín reynsla er sú að ungt fólk sé reiðubúið að flytja út á land fái það starf við hæfi því að þar blómstrar heldur betur menningin og fjölskrúðugt mannlíf. Fólk gerir auðvitað þá kröfu að sköpuð sé tiltrú á störfin, að verkefni séu við hæfi og það sé stöðugleiki. Því hefur ekki verið að heilsa víða úti á landi. Þar hafa stofnanir barist í bökkum.

Við höfum ekki haft neina afgerandi stefnu um í hvaða átt heilbrigðisþjónustan er að fara. Er hún öll að fara til Reykjavíkur eða verður einungis vísir að henni eftir úti á landi? Þetta held ég að sé mjög mikilvægt.

Víða úti á landi fá heilbrigðisstarfsmenn að glíma við öðruvísi verkefni, fjölbreyttari verkefni, en á stórum vinnustöðum á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að þarna séu tvímælalaust tækifæri. Eftir því sem fólk dvelur lengri tíma úti á landi aukast líkurnar á því að fólk velji sér þar samastað til langframa.

Ég held að hægt væri að liðka til með einhverjum ívilnunum, en ég tel að þær ættu kannski að vera tímabundnar. En jafnræði á að ríkja á sem flestum sviðum. Það er auðvitað ákveðinn kostnaður sem íbúar úti á landi búa við sem við hér höfum ekki, en það er líka að nokkru leyti hagkvæmara.