148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni hér á undan fyrir góð orð og sólarljósið, við göngum öll inn í ljósið í þessu máli. Þetta er mjög gott plagg, ég hef verið að fara í gegnum það í dag. Það er margt mjög jákvætt í því og gott sem hægt er að byggja á til framtíðar.

Eitt er grundvallaratriði þegar ég hugsa um byggðamál og mér finnst vert að huga að í stóru myndinni þegar við metum árangur í byggðamálum og hvernig gengur þar. Eitt af þeim markmiðum sem við viljum sjá til framtíðar snertir húsnæðisverð á landsbyggðinni, byggingarkostnað og markaðsverð. Það er mín tilfinning að við séum farin að ná árangri vítt og breitt um landið þegar hægt er að fara í nýbyggingar á viðkomandi svæðum, við séum búin að byggja svæðin það sterkt upp efnahagslega og með öllu sem til þarf að mögulegt sé að byggja nýtt húsnæði. Það finnst mér að ætti að vera eitt af markmiðum í áætluninni þegar verið er að meta hvernig gengur varðandi húsnæðismarkaðinn og annað og hvernig við nálgumst þetta. Það er ekkert endilega flókið að finna út úr því hvernig þessi hlutföll þróast. Það er tiltölulega nákvæm tölfræði til og ég hefði mikinn áhuga á að sjá stöðuna metna með þeim hætti.

Ég ætla að fara í nokkra punkta í plagginu. Á bls. 17 er í kafla C.4 talað um höfuðborgarstefnu. Með leyfi forseta, vil ég vitna í verkefnismarkmiðið sem þar stendur:

„Að mótuð verði höfuðborgarstefna sem skilgreini hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar allra landsmanna, réttindi og skyldur borgarinnar sem höfuðborgar Íslands og stuðli að aukinni samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.“

Það er mjög jákvætt að þetta skuli vera tekið upp hér. Undanfarin ár hefur það ekki vegið svo þungt á metunum finnst mér hjá þeim sem stjórna í Reykjavíkurborg að ræða um höfuðborgarhlutverkið og höfuðborgarstefnu og slíkt. Það er mjög jákvætt að það skuli vera tekið á þessu hér og verður spennandi að sjá hvernig þessari vinnu vindur fram á næstu misserum.

Síðustu tvö ár hefur það gerst í fyrsta skipti, a.m.k. í um fjóra, fimm áratugi, að það fjölgi meira á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Það er algjörlega nýtt sem hefur verið að gerast síðustu tvö árin miðað við 40, 50 ár á undan. Aflvaki þeirra hluta segi ég að sé ferðaþjónustan og þessi gríðarlega innspýting sem hefur komið inn í landið, í höfuðborginni og á landsbyggðinni víðs vegar og haft gríðarleg áhrif á uppbyggingu mismunandi landsvæða. Ég held að við verðum að halda áfram á sömu braut. Það eru miklir möguleikar í ferðaþjónustunni. Það eru nokkrir punktar í byggðaáætluninni þar sem komið er að aðstöðumun millilandaflugvalla og uppbyggingu þeirra. Við skulum hafa í huga að það er búið að vera að byggja upp Keflavíkurflugvöll í 60, 70 ár og markaðssetja sem slíkan og hann varð sjálfbær flugvöllur fyrir fimm, sex árum. Það er ekki lengra síðan. Við getum alveg farið í þessa vegferð með aðra flugvelli. Það tekur bara sinn tíma að byggja þetta upp. En þetta er afar mikilvægt atriði og hefur gríðarleg áhrif á stór svæði í kringum flugvellina ef þetta gengur eftir og aðstöðumunur verður jafnaður á milli flugvallanna.

Hér er talað sérstaklega um flughlið inn í landið og fjölgun þeirra og þar eru nefndir Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur og flugþróunarsjóður sem er ákaflega mikilvægur og hefur sannað sig á undanförnum árum frá því að hann hóf rekstur fyrir tveimur, þremur árum, hefur sannað sig vel á Akureyri eins og við sjáum með flug Super Break og þær miklu og hröðu breytingar sem eru að verða í flugi þeirra. Þeir voru með 14 ferðir í vetur, en stefna a.m.k. á um 30 ferðir næsta vetur. Þannig að þetta er að byrja og hefur gríðarleg áhrif á ferðaþjónustu á Akureyri.

Í plagginu góða er síðan talað í kafla C.12 um kynningu og innleiðingu áfangastaðaáætlana, á ensku held ég að þetta sé kallað, með leyfi forseta, „destination management planning“. Við sjáum að núna er orðið mikið álag vítt og breitt á ferðamannastöðum, sérstaklega á suðvesturhorninu og með suðurströndinni, eiginlega komið að þolmörkum þar. Það er því gríðarlega mikilvægt að menn horfi til framtíðar og fari að huga að því að byggja með markvissari hætti upp nýja áfangastaði. Við eigum mikið af fallegum stöðum til að byggja upp. Geysir og Gullfoss, það er markaðssetning sem hefur staðið yfir í 60 ár. Þetta féll ekkert af himnum ofan. Það er búið að vera að vinna í þessu frá 1960 eða svo að byggja upp þessa áfangastaði. Þetta er því mjög mikilvægt plagg. Mér finnst margt mjög jákvætt í þessari stefnumótandi byggðaáætlun varðandi hvernig menn ætla að taka á þessum þáttum og hugsa um stóru myndina.

Varðandi raforkuflutning og þrífösun rafmagns þá er tekið á þeim þáttum í tillögunni og er mjög stórt og mikilvægt mál á þeim svæðum þar sem menn búa t.d. ekki við þrífösun rafmagns í dag. Það eru góðar forsendur fyrir því að menn geti tekið á þessu með sérverkefni eins og menn gerðu með ljósleiðaraverkefnið, sem hefur margoft komið fram í kvöld í umræðunni. Við eigum og getum farið að skoða einhverja svipaða möguleika varðandi þrífösun rafmagns.

Hitt stóra málið eða eitt af stærstu málunum er meginflutningskerfi raforku og aukið orkuöryggi. Þá er verið að tala um meginflutning á raforku, við tölum almennt um byggðalínuna, og síðan dreifinguna um sveitirnar. Við erum í miklu átaki í dreifingunni. Nú er verið að setja niður strengi vítt og breitt um landið og þessu ferli á að vera lokið ef ég man rétt 2035, 2036. Stóra verkefnið núna er að tryggja meginflutningsorkukerfið. Á Norðurlandi, Suðurnesjum og Vestfjörðum, er það algjört lykilverkefni að koma þessu í eitthvert stand þannig að menn geti búið við svipað raforkuöryggi og á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil líka nota tækifærið í ræðu minni og nefna, þó að það sé kannski ekki rætt í þessari þingsályktunartillögu, að ég vil líka að skoðaðar séu frekari leiðir og tengingar t.d. eins og um Kjalveg, sem ég tel að hafi fengið allt of litla umræðu í samfélaginu, en er gríðarlegt hagsmunamál fyrir stór landsvæði og gæti alveg umbreytt Norðvesturlandi t.d., haft þar gríðarleg áhrif og á fleiri stöðum.

Við höfum talað hér í þinginu um almenningssamgöngur í lofti, innanlandsflugið, skosku leiðina, sem ég bind miklar vonir við að menn taki einhver góð skref í á næstu misserum og fari að hugsa um innanlandsflugið sem almenningssamgöngur. Fyrir landsvæði eins og Vestfirði og Austfirði, ég hef heyrt það á Austfirðingum að þetta sé með stærstu málum sem eru þar í umræðu í samfélaginu og menn líta mjög til þess að það takist að koma skikki á innanlandsflugsmálin.

Ég hef áður einmitt rætt það hvort við gætum mögulega skoðað fjárlögin, ríkisfjármálaáætlunina og það sem við erum að gera, fjármálastefnu og annað, með byggðagleraugunum. Á sama hátt og menn hafa verið að skoða einstaka þætti, jafnréttismál og kynjaða fjárlagagerð og slíka hluti, þá finnst mér alveg koma til greina að við setjum upp byggðagleraugun þegar við metum ríkisfjármálaáætlun og annað.

Rétt í lokin um betri dreifingu ferðamanna, tíminn er að verða búinn. Við eigum gríðarlega möguleika í því að gera Ísland – allt árið að raunverulegu verkefni þannig að við höfum ferðamenn vítt og breitt um landið yfir allt árið og stuðlum þar með að þjóðhagslegum ábata og bætum framleiðni í samfélaginu sem tengist ferðaþjónustunni. Eins og ég er margoft búinn að koma inn á þá tel ég eitt af stærstu verkefnum okkar í byggðamálum á næstunni vera uppbyggingu á því sviði.