148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi varaflugvelli í landinu — hv. þingmaður nefndi Alexandersflugvöll — þá er erfitt að ræða það á stuttum tíma. En það þarf töluverða þjónustu og aðbúnað á flugvöllunum til að hægt sé að sinna grunnfluginu. Við getum nefnt starfsfólk, uppbyggingu á flughlöðum, að halda öllu gangandi, moksturstækjum og alla uppsetningu sem þarf til.

Það sem hefur skapað þá möguleika, bæði á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli, að þar sé hægt að sinna millilandaflugi er að það er töluvert mikið innanlandsflug í gangi og vellirnir eru í töluverðri starfsemi. Á Akureyrarflugvelli vinna 70–100 manns í ýmsum störfum, flugvirkjar og afgreiðslufólk, og öll tæki og tól eru til staðar. Svipað á Egilsstöðum, það er allt til staðar til að geta sinnt þessu frá grunni í dag.

Þetta er heilmikið átak. Við eigum erfitt með að sinna þessum tveimur flugvöllum í dag, að gera þá fullhæfa, ásamt Reykjavíkurflugvelli, sem varaflugvelli en þessir þrír flugvellir hafa þennan aðbúnað í dag. Það þarf mikið átak til þess að ná Alexandersflugvelli upp í það að geta sinnt þessu með sama hætti.

Ég ætla aðeins að ræða um þrífösunina. Ljósleiðarinn, öll heimili sækja í hann. Þetta er stórt og mikið mál og hefur haft mikil áhrif á byggðaþróun í landinu undanfarið þegar ljósleiðaratengingin er komin og menn hafa aðgengi að henni. Þrífösun rafmagns, ég gæti trúað að það sé kannski þrefalt verkefni í stærðargráðu fjárhagslega, grunar mig að sé, miðað við ljósleiðaradæmið. Þá þurfum við raunverulega að skoða hvort við getum fundið sértækar leiðir til að geta fjármagnað slíka hluti. Það væri mjög spennandi ef við sæjum þá þróun og fyndum möguleika til þess að fara í það verkefni og fjármagna það.