148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:49]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að í landinu séu varaflugvellir. Við þurfum að styrkja þá; þeir þjóna mjög mismunandi hlutverkum, veðurfarslega. Það þarf að hafa þá dreifða yfir landið fyrir ýmiss konar aðstæður sem koma upp.

Varðandi meginflutningskerfi raforku — þetta kom kannski verulega óskýrt frá mér áðan. En þegar ég var að tala um Kjöl var ég að hugsa um bílaumferðina yfir Kjöl. Ég fæ vonandi tækifæri í þinginu til að kynna þetta betur síðar og ná betri umræðu um þetta. En varðandi meginflutningskerfi raforku og Sprengisand þá hef ég talað um að menn eigi að hafa möguleikann opinn. Þegar menn hugsa til lengri tíma, með nýrri tækni og öðrum möguleikum, þarf að gæta þess að loka ekki á að mögulegt verði að tengja Þjórsársvæðið og norðureftir með svokallaðri T-lausn til að styrkja svæðin á milli og raforkukerfi í öllu landinu út frá öryggissjónarmiðum. Það þarf að eiga þann möguleika til langrar framtíðar.

Mér sýnist forsendur vera að skapast fyrir því að með umhverfislegum hætti sé hægt að skoða lagningu á DC-strengjum langar leiðir; það kostar mikið í dag, fer lækkandi, en með algjörum lágmarksumhverfisáhrifum. Það er kannski það sem við erum sammála um, ég hef aldrei talað um Kjöl í því sambandi að tengja raforkukerfin fyrir norðan og sunnan í eitt kerfi — þetta er umræða sem tengist byggðalínuhringnum — eða að tengja yfir hálendið. Við þekkjum þetta í annarri umræðu og vonandi getum við tekið hana betur síðar.