148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þingsályktunartillögu um byggðaáætlun og að við tökum þátt í umræðu um hana, allir þingmenn, ekki bara þingmenn landsbyggðarinnar eins og oft vill vera, vegna þess að þetta skiptir okkur öll máli. Þá langar mig kannski að tæpa hér fyrst á höfuðborgarstefnu, því mér finnst það vera líka mjög mikilvægt í byggðastefnunni. Með leyfi forseta, segir hér um eitt verkefnismarkmiðið:

„Að mótuð verði höfuðborgarstefna sem skilgreini hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar allra landsmanna, réttindi og skyldur borgarinnar sem höfuðborgar Íslands og stuðli að aukinni samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.“

Ég nefni þetta fyrst, ekki vegna þess að ég er þingmaður höfuðborgarsvæðisins heldur vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að hér sé horft á samkeppnishæfni Íslands. Það er líka gríðarlega mikilvægt fyrir landsbyggðina að hér sé öflugt höfuðborgarsvæði. Við verðum að taka umræðuna um byggðaáætlun út úr því að við séum einhvern veginn að tala um höfuðborgina gegn landsbyggðinni og öfugt.

Að því sögðu verð ég að segja að mér hugnast einkar vel hugmyndir sem lúta að stuðningi við einstaklinga út af námslánum þannig að það sé ákveðinn hvati í því fólginn að búa á landsbyggðinni varðandi endurgreiðslu og niðurgreiðslu á námslánum.

Mig langar að tæpa á húsnæðismálunum. Ég veit að við munum reyndar ræða aðeins seinna í kvöld húsnæðisstefnu frá öðrum hæstv. ráðherra. Ég held að það verkefni sé gríðarlega mikilvægt og það á landinu öllu. Þá langar mig kannski aðeins að benda á það hvort það vanti eitthvað inn í lið C.7, um húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna. Þar er talað um landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag og loks aðalskipulag. Svo er vísað í velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóð. Ég velti fyrir mér hvort það vanti inn þá breytingu sem fyrirhuguð er í frumvarpinu sem við erum að ræða hér og það hlutverk sem Íbúðalánasjóður hefur fengið og virðist að einhverju leyti kannski hafa fengið hlutverk sem áður var ætlað Skipulagsstofnun í gegnum landsskipulagsstefnu, þ.e. að leggja mat á þörf á íbúðum og hversu mikið væri búið að skipuleggja.

Ég tek undir það sem aðrir hafa sagt um flughlið inn í landið. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt þegar kemur að því að dreifa ferðamönnum um landið allt.

Mig langar að fá að tjá hæstv. ráðherra skoðun mína á annars vegar markmiði B.5, sem er um nýsköpun í matvælaiðnaði, og svo B.14, fjármagn til nýsköpunar. Það er svo sem gömul saga og ný þegar verið er að ræða um nýsköpunarmál að þau eru stundum tekin niður á fagsvið. Í lið B.5 er talað sérstaklega um nýsköpun í matvælaiðnaði og vísað í ákveðna sjóði sem komið hefur verið á fót í tengslum við bæði landbúnað og sjávarútveg. Ég leyfi mér að hafa þá skoðun að það sé kannski ekki alltaf besta leiðin þegar stutt er við nýsköpun að afmarka það svona við ákveðnar atvinnugreinar. Nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðlar þurfa oft á mjög sambærilegri þjónustu að halda og það er oft erfitt að draga mörkin og ákveða hvort það sé verið að vinna að matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, upplifunariðnaði eða þess háttar. Ég hallast að þeirri skoðun, hafandi lengi starfað að nýsköpunarmálum og með mörgum atvinnuráðgjöfum úti í landshlutunum, að það kunni að vera einfaldara og skýrara og þar af leiðandi líka hagkvæmara að vera með opinbera aðstoð er lýtur að nýsköpun fyrst og fremst í einum flokki óháð því hvort viðkomandi sé að vinna í sjávarútvegi, landbúnaði eða á einhverju öðru sviði. Mig langar að benda á þetta og óska eftir því að nefndin velti þessu fyrir sér þegar hún fer yfir þessa þingsályktunartillögu.

Mig langar líka að nefna lið A.7, fæðingarþjónustu og mæðravernd. Það hlýtur að vera algjört lykilatriði ef ungt fólk á að búa úti um landið allt að þar sé viðunandi fæðingarþjónusta og mæðravernd.

Ég get líka heldur ekki komið hér upp öðruvísi en að nefna samgöngur sem ég held reyndar að sé langstærsta byggðamálið. Ég efast ekki um að hæstv. ráðherra sé mér líka sammála í því, verandi líka með samgöngumálin. Ég minnist þess vel þegar ég var að heimsækja nýsköpunarfyrirtæki vestur á fjörðum sem ráðgjafi og við vorum að ræða við aðila þar hvort þyrfti ekki að efla flugsamgöngur og þyrfti ekki að gera þetta og hitt og viðkomandi sagði: Það sem skiptir öllu máli er bara að vegirnir séu í lagi þannig að ég komist til Keflavíkur þegar ég þarf að fljúga til Keflavíkur og hitta erlenda viðskiptavini úti. Mér er eiginlega sama um allt annað. Ef þið getið tryggt þetta þá skiptir það öllu máli.

Ég er ekki að segja að hitt skipti ekki máli, en ég held að það sé algjört grunnatriði að fólk komist leiðar sinnar á vegunum. Við getum eytt töluverðu fjármagni í flugvelli um land allt, en ef það er svo ekki einhver tilbúinn að reka flugþjónustu og lenda á þessum ágætu flugvöllum þá er í raun og veru innviðafjárfestingin til lítils.

Þá langar mig að nefna kaflann um almenningssamgöngur. Mér finnst það gott og gilt markmið að við ætlum að halda áfram að þróa almenningssamgöngur um landið allt. Ég held líka að við verðum að vera mjög raunsæ í því verkefni. Það hefur tekist mjög misjafnlega vel. Ég vil bara hvetja hæstv. ráðherra til að fara vel yfir þessa þætti. Ég held að margt hafi gengið vel í því að byggja upp almenningssamgöngur til ákveðinna landshluta, en annað síður. Hér er nefnt sérstaklega sem annað verkefnismarkmið, flug sem almenningssamgöngur, sem getur þá mögulega virkað betur þar sem landleiðin er erfiðari, lengra að fara og annað. En til að það sé raunhæfur kostur fyrir íbúa á landsbyggðinni þá verðum við auðvitað að finna einhverjar leiðir til að niðurgreiða það. Hér er skoska leiðin nefnd sem ég held að sé áhugavert að skoða.

Að þessu sögðu þá hefur hæstv. ráðherra komið hér inn á það í umræðum sem lúta að samgöngumálum og almenningssamgöngum, og það hefur verið skýrt í fjölmiðlum, að sveitarfélögin úti á landi berjist í bökkum með þetta verkefni, almenningssamgöngur, vegna þess að það fjármagn sem kemur frá ríkinu dugar ekki til að reka almenningssamgöngur.

Þá vil ég á það minna að ríkisvaldið er að setja um 800–900 milljónir á ári í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það er samkomulag sem hefur líka komið til tals í þessum þingsal á síðustu dögum. Sveitarfélögin sjálf á höfuðborgarsvæðinu eru að setja gígantískar upphæðir í almenningssamgöngur. Það er ekki svo að þetta fjármagn sem kemur frá ríkinu standi undir almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, alls ekki, heldur kosta sveitarfélögin öll til töluverðum fjármunum í almenningssamgöngur.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að mér finnst umræðan í þessum sal hafa á köflum verið kannski stundum svolítið ósanngjörn gagnvart almenningssamgöngum. Almenningssamgöngur á landsbyggðinni eru mikilvægar og það er mikilvægt að það sé tekið á þessu hér í þessari áætlun, en ég ítreka það að ég held að við verðum að vera mjög raunsæ þegar að þessu kemur. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu borga nokkra milljarða á ári, öll saman, líklega 4 milljarða eða þar um bil á hverju ári í almenningssamgöngur. Öflugar og góðar almenningssamgöngur, sérstaklega þegar við horfum til loftslagsmálanna, lúta að því að við séum að flytja fjölda fólks, það sé fjöldi fólks á leiðinni á milli staða. Væntanlega er höfuðborgarsvæðið eini staðurinn þar sem raunhæft er að hafa mjög öflugar almenningssamgöngur þar sem tíðnin er mikil og fjöldi farþega er fluttur. Þess vegna held ég að það hljóti líka að vera hluti af byggðastefnu okkar að tryggja öflugar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Þá ætla ég að láta þessari ræðu minni lokið sem var um byggðaáætlun, en ekki síður um höfuðborgarsvæðið sem skiptir þar miklu máli, og samgöngur.