148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[22:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Það er eitt í þessu öllu sem mér þykir vanta. Hvað er verið að gera, eða hvaða lausnum er verið að reyna að stilla upp, varðandi það vandamál sem er læst inni í Íbúðalánasjóði, sem er tilkomið vegna uppgjöra og vaxtamunar á uppgerðum lánum og endurfjárfestingarmöguleikum sjóðsins? Þegar farið er í töluvert umfangsmikla breytingu eins og þessa held ég að ekki sé annað fært en að huga að slíku risavandamáli eins og þar hvílir inni.

Fyrirgefið, ég er ekki að tala um uppgreiðslugjöldin í þessu tilviki, ég er að tala um þegar uppgerð lán, þar sem Íbúðalánasjóður hefur ekki heimild til uppgjörs á fjármögnun sinni. Það er vandamál upp á ansi marga tugi milljarða. Ég held að það sé ótæk ráðstöfun eða nálgun að fara í svona umfangsmikla uppstokkun án þess að þetta vandamál sé nefnt að nokkru leyti, að því er mér sýnist, jafn aðkallandi og það er. Og það fer ekki minnkandi.