148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[22:59]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er auðvitað svo að á undanförnum árum hafa verið að safnast upp fjármunir í Íbúðalánasjóði, líkt og hv. þingmaður benti á, vegna þess að einstaklingar og fyrirtæki hafa verið að greiða upp lán sín við sjóðinn og hann hefur síðan ekki verið, hvað skulum við segja, samkeppnisfær þegar kemur að vöxtum.

Hins vegar er rétt að árétta það hér að fjárhagsleg staða sjóðsins er góð; hann skilar jákvæðri rekstrarniðurstöðu þrátt fyrir þetta. Það er ekki svo að sjóðurinn sé í rekstrarvanda vegna þessa. Engu að síður þarf að finna sjóðnum nýtt hlutverk. Það hefur staðið til — kemur reyndar fram í greinargerð með frumvarpinu — að endurskoða allar lánareglur sjóðsins, sem er stærra viðfangsefni og getur og mun tengjast þeirri vinnu sem ég boðaði hér áðan í lok framsögu minnar, bæði varðandi landsbyggðina og síðan varðandi fyrstu kaupendur. Það mun tengjast úrlausn á því máli sem hv. þingmaður benti á áðan.

Ég vil líka geta þess að það krefst lagasetningar og lagabreytingar en það er mögulegt að lækka vexti sjóðsins. Í nafni vandaðrar lagasetningar var ekki mögulegt að koma með það á þessum skamma tíma hér vegna þess að það kerfi sem við höfum byggt upp varðandi lagasetningu er á þann veg að það þarf að kostnaðarmeta alla hluti, sérstaklega gagnvart Íbúðalánasjóði því að hann er fjármálastofnun. En ég get alveg upplýst hér að í vinnslu er kostnaðarmat hjá óháðum aðila varðandi það að gera lagabreytingartillögur gagnvart sjóðnum þannig að vextir hans geti lækkað. Þá myndi það sérstaklega koma vel út gagnvart landsbyggðinni vegna þess að það er fyrst og fremst hún sem er að nýta sér útlánastarfsemi sjóðsins. (Forseti hringir.) Ekki var mögulegt að fá þennan óháða aðila til að klára það áður en framlagningarfrestur þessa frumvarps rann út. Þess vegna var það ákvæði tekið út úr frumvarpinu áður en það var lagt fram.