148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hæstv. ráðherra sé örlítið að misskilja þetta. Ég tel mikilvægt að Íbúðalánasjóður fái heimild til að koma þeim stabba sem í honum liggur í vinnu. En það að Íbúðalánasjóður fái heimild til að lækka vexti og verði þar með samkeppnishæfur á markaði leysir ekki vandamálið af þeirri fjármögnun sem hann situr uppi með, sem er á mun hærri vöxtum. Það vaxtagap leysist ekki með því að peningur sé lánaður út á lægri vöxtum þó að auðvitað sé það jákvætt að Íbúðalánasjóður geti komið fjármunum í vinnu.

En það er annað atriði sem mig langaði til að fá að spyrja hæstv. ráðherra út í. Hann spurði mig, á meðan á fyrri spurningu minni stóð, hvort ég væri að spyrja um uppgreiðslugjöldin. Ég hafði svo sem ekki gert það en kannski er áhugavert að ég geri það núna, hvort einhver skoðun sé í gangi hvað það varðar. Mikill fjöldi einstaklinga og heimila hefur gert upp lán sín og tekið á sig þetta vaxtamunarhögg en sömuleiðis er enn stór hópur sem er með sína gömlu Íbúðalánasjóðsfjármögnun á mun hærri vöxtum en mönnum stæði til boða á markaði í dag; fólk sem ræður ekki við þá endurfjármögnun vegna þess að Íbúðalánasjóður kallar þá eftir uppgjöri á vaxtamun sem nemur endurfjármögnunartækifærum sjóðsins til líftíma lánsins sem eftir er. Væri áhugavert að heyra hvort einhverjar vangaveltur eru í gangi hvað þetta varðar.