148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir hennar ræðu. Þingmaðurinn er með töluvert mikla reynslu af starfi í sveitarstjórnum, það er sá vinkill sem ég vil ræða aðeins við þingmanninn. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt er það ein af meginskyldum sveitarfélaga að huga að húsnæðismálum og tryggja húsnæði fyrir íbúa sem ekki geta séð sér sjálfir fyrir húsnæði og þar með er óhjákvæmilegt að hafa mikla skoðun á húsnæðismálum og uppbyggingu í sínu sveitarfélagi.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Telur hv. þingmaður að þau ákvæði laganna sem snúa að þessu, þ.e. áætlanagerð sveitarfélaganna og skipulagi húsnæðismála, eins og þarna kemur fram, séu ekki til bóta og geti að mörgu leyti gert sveitarfélögunum auðveldara fyrir við langtímaskipulagningu? Geta þau til dæmis ekki gert íbúum auðveldara fyrir að átta sig á því, t.d. þegar þeir velja sér búsetu, hvaða sveitarfélag hafi heppilegustu eða við skulum segja íbúavænstu húsnæðisáætlunina? Eða hvort það sveitarfélag sem þeir eru að flytja til eða búa í hafi á prjónunum einhver áform sem geta skipt íbúana verulegu máli í þessu tilliti?