148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:25]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er ýmislegt sem vaknar upp þegar maður les fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðismál. Þetta er, með nokkrum fyrirvara sagt, uppáhaldsstofnunin mín, Íbúðalánasjóður. Ég er einn af þeim sem hef í mörg ár haft mjög miklar efasemdir um að rétt sé að halda áfram rekstri Íbúðalánasjóðs. Þetta frumvarp er ákveðin tilraun til að skjóta einhverjum stoðum, eða réttara sagt röksemdum, undir það að nauðsynlegt sé að ríkið sé með Íbúðalánasjóð til frambúðar. Ég held hins vegar að eiginlega sé kominn tími til að við ræðum það af fullri alvöru í þessum sal eins og annars staðar að Íbúðalánasjóður er hálfgert nátttröll miðað við þá þróun sem átt hefur sér stað. Það kunna að hafa verið einhver rök, góð og gild rök, fyrir því hér á árum áður að ríkið stæði að uppbyggingu lánasjóða á húsnæðismarkaði, hvort heldur það var Húsnæðisstofnun eða Byggingarsjóður verkamanna. En það sem einu sinni var gott og gilt þarf ekki endilega að vera það í dag.

Ég hef í sjálfu sér líka miklar efasemdir um það hvernig við stöndum almennt að húsnæðismálum, hvernig við stöndum að því að styðja við bakið á ungu fólki sérstaklega, en í raun bara öllum þeim sem reyna að láta þann draum rætast að eignast eigið húsnæði — hvernig við stöndum við bakið á þeim, t.d. í formi vaxtabóta sem er í mínum huga lítið annað en niðurgreiðsla á vöxtum og er ég ekki viss um að endi í vasa þeirra sem niðurgreiðslunnar eiga að njóta.

Ég tók það saman fyrir tveimur árum að á árunum 2000–2015 setti ríkissjóður u.þ.b. 247 þús. milljónir í húsnæðismál — 247 milljarða á 15 árum. Þar af voru 176 milljarðar í vaxtabætur, 63 milljarðar til að koma í veg fyrir að Íbúðalánasjóður færi í þrot. Þá undanskil ég þá gríðarlegu fjármuni sem fóru í skuldaleiðréttinguna svokölluðu sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks beitti sér fyrir. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er einmitt sú að ef við setjum þetta í samhengi, og miðum við að íbúð kosti 30 milljónir, þá hefði ríkissjóður haft bolmagn á þessum 15 árum til að leggja 20% eigið fé, eða 6 milljónir, til yfir 40.000 kaupenda sem væru að kaupa sína fyrstu íbúð. Við hefðum sem sagt með skynsamlegri nýtingu fjármuna getað sett 20% til 40.000 fjölskyldna sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð, í staðinn fyrir að verja þeim svo óskynsamlega í vaxtabætur og síðan í að bjarga Íbúðalánasjóði. Og nú erum við hér með frumvarpi þessu að reyna að skjóta frekari röksemdum eða kannski réttlætingu fyrir tilvist sjóðsins. Þetta finnst mér vera dæmi um þær villigötur sem við höfum því miður ratað í á undanförnum árum.

Eins og svo oft áður er því miður ekki hægt að benda á neinn vegna þess að ég held að allir stjórnmálaflokkar eða flestir hafi með einum eða öðrum hætti tekið þátt í að móta þessa stefnu, stefnu sem ég held að hafi verið röng í grunninn. Þegar við lítum á þetta og reynum að horfa á þetta úr fjarlægð held ég að niðurstaðan verði sú að okkur hafi borið af leið, að við höfum ekki varið fjármunum skynsamlega og ekki gert fólki kleift að eignast sína íbúð, verða sjálfseignarfólk — ekki byggt undir séreignarstefnuna sem er mér mjög kær. Ég held að við ættum að sameinast um það.

Ég held nefnilega að meginstefna stjórnvalda eigi akkúrat að vera að byggja upp og tryggja að einstaklingar geti ráðist í stærstu fjárfestingu sína í lífinu. Við eigum að létta undir með fólki í þeim efnum. Og ýmislegt hefur verið gert. Menn geta nú nýtt sér séreignarsparnaðinn með þeim hætti, það allt saman hjálpar.

Því hefur verið haldið fram, m.a. í umræðum hér í kvöld, að hlutverk Íbúðalánasjóðs sé mjög mikilvægt. Við eigum kannski eftir að ræða það frekar hér, líklegast næsta haust ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. Því hefur verið haldið fram að það skipti gríðarlega miklu máli að Íbúðalánasjóður starfi til þess að tryggja fjármögnun íbúðakaupa úti á landi, á landsbyggðinni. Þetta er sem sagt byggðamál. Það er grunnröksemdin, fyrir utan að búa til greiningardeild, sinna verkefnum sem fullt af öðrum aðilum, einkaaðilum, eru að gera.

Ég velti því fyrir mér hvort skynsamlegt sé að koma því þannig fyrir að það eigi að vera opinber stofnun sem er að veita lán, er að úthluta stofnframlögum, eigi síðan líka að sinna greiningu og móta og veita ráðgjöf varðandi húsnæðisstefnu stjórnvalda. Þetta gengur ekki upp. Þetta er ekki skynsamlegt. Ekki síst þegar aðrir aðilar eru að gera þessar greiningar og gera það mjög vel. Samtök iðnaðarins er einn aðili. Einhverjar merkustu greiningar sem gerðar eru á íslenskum húsnæðismarkaði eru hjá Landsbankanum þar sem Ari Skúlason hagfræðingur leiðir teymi og hefur líklegast meiri þekkingu en flestir aðrir á húsnæðismálum.

Varðandi þá fullyrðingu að nauðsynlegt sé fyrir okkur að halda Íbúðalánasjóði áfram og starfsemi hans út frá byggðasjónarmiðum — ég sem er borinn og barnfæddur Skagfirðingur verð alltaf meyr í hjarta þegar talað er um byggðastefnu og byggðamál, þau skipta okkur öll máli, hvort heldur við búum úti á landi eða hér á höfuðborgarsvæðinu — þá eru vísbendingar um að þær fullyrðingar séu hreinlega rangar. Ég ætla ekki að fara yfir það hvernig Íbúðalánasjóður hefur gefið eftir á markaðnum almennt, það kemur ágætlega fram í greinargerðinni. En ég ætla bara að benda á svar við fyrirspurn frá Unni Brá Konráðsdóttur sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitti um hlutfall lána með veði í íbúðarhúsnæði á þinglýstum lánum sem veitt voru hjá Íbúðalánasjóði annars vegar og öðrum kröfuhöfum hins vegar á tímabilinu 1. janúar 2016 til 31. desember 2017. Það er mjög merkileg lesning.

Hlutdeild Íbúðalánasjóðs á höfuðborgarsvæðinu er 1,5% af veittum lánum, veðlánum í íbúðarhúsnæði. Á Vesturlandi 3,6%. Á Vestfjörðum 1,24% á seinasta ári. Norðurland vestra 5,6%. Norðurland eystra 1,6%. Austurland, hæst, 7,2%. Suðurland 2,8%. 3,4% á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum 3,5%. Þetta er hlutdeild Íbúðalánasjóðs í íbúðalánum sem veitt voru árið 2017 og kemur skýrt og skilmerkilega fram í svari hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Ef menn ætla að færa rök fyrir því að nauðsynlegt sé að halda Íbúðalánasjóði og halda starfsemi hans áfram á grundvelli byggðasjónarmiða þá hygg ég að rökin hafi fallið með því svari sem veitt var hér fyrr í vetur. Það er ekki svo, það eru til aðrar leiðir.

Þá kemur að því: Á Íbúðalánasjóður að vera með einhverja annars konar fyrirgreiðslu? Til dæmis getum við horft til reynslunnar þegar við höfðum Byggingarsjóð verkamanna. Ég hygg að hægt sé að ræða slíkt. Ég hygg að rök séu fyrir því að til sé opinber lánasjóður sem starfar á ábyrgð ríkissjóðs, við komumst ekkert fram hjá því, sem veiti lán til fólks sem er kannski með lágar tekjur. En það getur ekki verið bundið við einhver landsvæði. Það er þá bara verið að gera fólki sem lægstu tekjurnar hefur kleift, vonandi, að eignast sitt eigið húsnæði. Það er hins vegar umræða sem við ættum að taka. En sú stofnun getur ekki líka verið að sinna greiningar- og ráðgjafarhlutverki og veita stofnframlög og veita ríkisstjórn og öðrum aðilum ráðgjöf varðandi stefnu í húsnæðismálum. Það gengur ekki upp. Það er ótrúverðugt að stofnun sem er í lánaviðskiptum reki greiningardeild sem á síðan að veita stjórnvöldum ráðgjöf til þess að taka ákvarðanir við mótun húsnæðisstefnu, sem hefur síðan bein áhrif á hinn hluta starfseminnar sem er jafnvel meginhluti starfseminnar.

Ég hefði haldið að við ættum í rólegheitum að velta því fyrir okkur hvort ekki sé skynsamlegt að byggja fremur undir það að óháðir aðilar komi að þessu. Því fleiri sem álitin eru, því fleiri sem greiningarnar eru og því fleiri sem sjónarmiðin eru þeim mun betur getur það orðið innleggið sem við þurfum að fá, innleggið sem gerir hæstv. húsnæðismálaráðherra kleift að móta raunverulega stefnu til framtíðar í húsnæðismálum.

Ég hygg að þetta sé miklu skynsamlegri nálgun. Það verður forvitnilegt að sjá, eftir meðför í nefnd, hvernig frumvarpið kemur hér til 2. umr. Það er kannski vegna þess að seint er liðið á kvöldið að ekki eru fleiri hér í salnum, en ég hefði í sjálfu sér átt von á því … (Félmrh.: … en góðmennt.) — já, það er kannski góðmennt, hæstv. ráðherra, á meðan við tveir erum í salnum þá erum við sammála um það. En ég átti hins vegar von á því að hér tækju fleiri til máls og fleiri legðu sitt af mörkum við þetta vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að okkur takist vel til. Það skiptir alla máli. Þetta er eitt af þeim málum sem ég hygg að við ættum að vanda okkur við.