148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir upplýsandi og góða ræðu. Ég veit að hv. þingmaður hefur sett sig mjög vel inn í málefni Íbúðalánasjóðs en það er eitt atriði í því umhverfi öllu sem ég spurði hæstv. ráðherra út í hér fyrr í kvöld, þ.e. vandamál sem liggur inni í Íbúðalánasjóði og snýr að misgengi varðandi þegar tilkomna fjármögnun Íbúðalánasjóðs, sem honum er ekki heimilt að gera upp, og síðan möguleika til þess að koma þeim peningum áfram. Ekki er heimilt að gera upp lánin og Íbúðalánasjóður hefur takmarkaða getu til þess að endurlána og þá væri það á allt öðrum kjörum en fjármögnun sjóðsins var á á sínum tíma.

Telur hv. þm. Óli Björn Kárason að um sé að ræða alvarlegt vandamál hvað sjóðinn varðar? Hefur hann myndað sér skoðun á því hvað sé til ráða í þeim efnum? Það kom skýrt fram hjá honum áðan að hann hefur efasemdir um að sjóðurinn sé á vetur setjandi, a.m.k. ekki marga. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta varðar, því að þetta er alvarlegt mál. Að mínu mati verður ekki komist hjá því öllu lengur að taka á því, eða alla vega mynda sér skoðun á hvernig menn ætla að komast út úr vandamálunum.