148. löggjafarþing — 52. fundur,  18. apr. 2018.

framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga er varða flutning á vopnum.

498. mál
[15:02]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti hefur kannað þetta mál. Eins og þingmönnum er kunnugt var atkvæðagreiðslu um þessa skýrslubeiðni frestað á mánudaginn eftir að bréf hafði borist frá utanríkisráðherra þar sem lýst var ákveðnum sjónarmiðum um skýrslubeiðnina og á það bent að hún beindist að hluta til að þáttum sem væru á verksviði annars ráðherra.

Engu að síður er það svo að í fyrirliggjandi skýrslubeiðni er óskað eftir því að fjallað verði um atriði sem falla undir málefnasvið utanríkisráðherra samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 84/2017. Þar er í 8. gr. kveðið á um að utanríkisráðherra fari með utanríkismál, þar á meðal samninga við önnur ríki og gerð þeirra. Ábyrgð á framkvæmd alþjóðasamninga getur þó eftir atvikum verið á hendi, eða að hluta til á hendi, annarra ráðherra eins og kunnugt er.

Beiðnin varðar opinbert málefni og uppfyllir að öllu leyti ákvæði þingskapa. Hún telst því tæk til þinglegrar meðferðar og atkvæðagreiðslu.

Þá hefur þessi skoðun einnig leitt til þess að skýrslubeiðendur hafa gert nokkrar breytingar á beiðni sinni til að taka betur mið af þeirri verkaskiptingu sem á bak við liggur. Hefur þingskjalið verið prentað upp og kemur nú þannig til atkvæðagreiðslu.