148. löggjafarþing — 52. fundur,  18. apr. 2018.

framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga er varða flutning á vopnum.

498. mál
[15:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil einfaldlega minna á hvað það er sem liggur hér að baki þessari skýrslubeiðni. Það eru hin ólýsanlegu stríðsátök í Sýrlandi og þær upplýsingar sem fram komu í fréttaskýringaþættinum Kveik sem sýndur var í ríkissjónvarpinu 27. febrúar sl. þar sem fram kom að íslenska ríkið hefur ítrekað veitt íslensku flugfyrirtæki undanþágur til flutninga á vopnum sem grunur leikur á að gætu endað á svæðum sem bannað er að flytja vopn til í samræmi við þær alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir.

Við á Íslandi berum ábyrgð þegar kemur að stríðsátökunum í Sýrlandi. Við þingmenn og framkvæmdarvald herlausrar þjóðar berum líka ábyrgð á því að tala ávallt fyrir friðsamlegum lausnum. Við berum líka ábyrgð á því að virða alþjóðlega sáttmála á borði vopnasölusamninga og það sem tiltekið er í þessari skýrslubeiðni og við berum líka ábyrgð á því að bera virðingu fyrir mannréttindum á alþjóðavettvangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)