148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

samningar við ljósmæður.

[15:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hvað varðar inngang hv. þingmanns um kerfisbundna mismunun — og það sérstaka áhyggjuefni sem það er hvernig kvennastéttir eru í raun undirsettar og ekki síst í heilbrigðiskerfinu, ég tek undir það — vil ég fyrst víkja að því sem heyrir undir mitt ráðuneyti og lýtur að þessum samningi um heimaþjónustu við mæður og nýfædd börn.

Vegna þess sem hefur verið rætt í fjölmiðlum í gær, og í morgun raunar líka, vil ég árétta að ekki var um að ræða samningsdrög sem lágu óundirrituð á mínu borði, heldur minnisblað frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem tiltekin útfærsla var lögð til á rammasamningnum við heimaþjónustuljósmæður. Þessi útfærsla byggði á því að þegar um væri að ræða veruleg frávik í heilsufari barns eða móður yrðu þau ekki lengur þjónustuð af heimaþjónustuljósmæðrum. Bæði Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalinn – háskólasjúkrahús meta það svo að sú breyting myndi fela í sér umtalsvert aukinn kostnað og auk þess lakari þjónustu en nú er og töldu þess vegna að þessi tillaga, sem var á minnisblaði frá Sjúkratryggingum Íslands, eftir samskipti við ljósmæður, væri óaðgengileg.

Því er rangt að segja að samningur hafi legið á mínu borði og beðið staðfestingar eins og staðhæft hefur verið í fjölmiðlum. Í dag hefur gefist ráðrúm til að funda með Sjúkratryggingum Íslands, af því að þetta bréf barst frá Landspítalanum í morgun, um rammasamninginn. Sá fundur gekk vel og er áformað að ráðuneytið og Sjúkratryggingar hittist aftur á morgun kl. 14.

Í ljósi stöðunnar hef ég nú þegar skrifað bréf til allra heilbrigðisstofnana landsins með tilmælum um að þær annist umrædda þjónustu þar til lausn hefur fundist á stöðunni. Það er á ábyrgð heilbrigðisstofnana að tryggja öryggi mæðra og barna og að nýburar og sængurkonur líði ekki fyrir þá stöðu sem upp er komin.