148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

framlög til samgöngumála í Reykjavík.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg skýrt að þrátt fyrir að í nýrri fjármálaáætlun sé um að ræða u.þ.b. fjórðungsaukningu til vegamála, sem ég verð að segja alveg eins og er að er töluvert mikið átak í vegamálum, hvernig sem menn vilja síðan líta á það — sumir segja að það þurfi að bera það saman við þörfina. Ef við skoðum bara það fjármagn sem við höfum haft til viðhalds og nýframkvæmda í vegamálum er um að ræða stóraukningu í fjármálaáætluninni.

En það er rétt, það mun ekki duga til þess að standa undir tugmilljarðaverkefni eins og borgarlínan er. Reyndar verður að horfa á tímabilið í heild. Ég kom því að hér í mínu fyrra svari að það er ekki þannig að ríkið eigi að standa eitt undir öllum kostnaðinum. Borgarlínuhugmyndina finnst mér að þurfi að skilgreina miklu betur. Hún er allt frá því að vera tæplega 100 milljarða framkvæmd yfir í það einfaldlega að vera greiðari almenningssamgöngur.