148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

samningur um heimaþjónustu ljósmæðra.

[15:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í morgun birtust fréttir þess efnis að allar þær 95 heimaþjónustuljósmæður sem skráðar væru til starfa á landinu hefðu ákveðið að leggja niður störf frá og með deginum í dag. Að sögn ljósmæðra leggja þær niður störf vegna þess að samningur Sjúkratrygginga Íslands og ljósmæðra bíði undirritunar í ráðuneytinu. En samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins er vinnu við samninginn ekki lokið og hafa Sjúkratryggingar aðeins komið á framfæri við ráðuneytið minnisblaði með tillögum að breytingum á samningnum í kjölfar samningaviðræðna Sjúkratrygginga við ljósmæður.

Mig langar til að byrja á að spyrja ráðherra: Hvað veldur þessum misvísandi upplýsingum? Fyrri samningur ljósmæðra við Sjúkratryggingar tryggði þeim 4.394 kr. á tímann fyrir heimaþjónustu. Sá samningur rann út þann 31. janúar sl. Ljósmæður voru mjög ósáttar við tímakaupið fyrir heimaþjónustuna enda er samningurinn langt frá því að vera ásættanlegur miðað við vinnu og álag. Að sögn ljósmæðra var samþykkt á fundinum með Sjúkratryggingum Íslands að stefna á að ná inn hækkun á samningnum. Ljóst var að ef ekki yrði sett aukið fjármagn í samninginn yrði að skerða þjónustu. Það sem lá beinast við, og var þá nefnt sem neyðarúrræði, var að taka út þennan veikasta hóp kvenna og barna sem myndi gera að verkum að þau yrðu að liggja lengur á sængurlegudeild með tilheyrandi kostnaði.

Þessum hópi var bætt við í heimaþjónustusamninga fyrir nokkrum árum en konurnar lágu áður sængurlegu. Það var því mikil hagræðing fyrir sjúkrahús að geta útskrifað þennan hóp í heimaþjónustu og ekki síður mikilvægt fyrir konurnar sem fengu þá örugga þjónustu heima hjá sér frekar en inni á spítala.

Fram kemur í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins að tillögur Sjúkratrygginga Íslands að nýjum samningi feli í sér skerðingu á heimaþjónustu ljósmæðra, en hvergi er minnst á þá hækkun sem ljósmæður hafa beðið um til að koma í veg fyrir þá skerðingu. Þær vilja sinna þessari þjónustu áfram.

Ég vil því spyrja ráðherra hvort úr þessu megi lesa að ekki sé vilji til að setja aukið fjármagn í samninginn og því sé ætlunin að draga úr heimaþjónustu. Væri ekki vænlegra að tryggja ljósmæðrum í heimaþjónustu þessa hækkun og halda áfram að veita þessum viðkvæma hópi kvenna heimaþjónustu?