148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

króna á móti krónu skerðingar.

[15:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er króna á móti krónu skerðing á öryrkja sem ég ætla að tala um hér og nú og beina fyrirspurn minni um þá skerðingu til hæstv. velferðarráðherra. Sá þjóðfélagshópur sem kallast öryrkjar er að sligast undan króna á móti krónu skerðingu. Það er skerðing sem þýðir nákvæmlega það að hver einasta króna sem sá einstaklingur sem heitir öryrki reynir að afla sér — reynir að sýna þá viðleitni ef hann mögulega getur heilsufarslega séð að reyna að draga sig upp úr þeirri fátækt sem er ekkert annað en mannanna verk, stjórnvalda, mannvonskuverk að mínu viti — er tekin af honum. Það er akkúrat ekki neitt gert í því nákvæmlega núna að afnema þessa skerðingu. Það eina sem þarf heitir vilji valdhafa, heitir penni í hönd og heitir nákvæmlega það sama strik sem er hægt að draga yfir þessa skerðingu gagnvart öryrkjum og gert var á sínum tíma fyrir hönd aldraðra.

Hvers vegna er verið að mismuna þessum þjóðfélagshópum sérstaklega? Hvers vegna er verið að blanda saman og réttlæta krónu á móti krónu skerðingu á þá leið að það sé vegna þess að nú sé í vinnslu eitthvað sem heitir starfsgetumat? Það þarf ekki skarpan heila til að átta sig á því að starfsgetumat og króna á móti krónu skerðing á öryrkja eiga bara ekkert sameiginlegt. Að taka þetta tvennt, henda því í einn pott og hræra því saman til þess eins að reyna að réttlæta það að ekki sé hægt að afnema þessa krónu á móti krónu skerðingu er algjörlega óskiljanlegt fyrir mig. Því spyr ég hæstv. velferðarráðherra: Hvað í veröldinni stendur í vegi fyrir því, hæstv. velferðarráðherra, að þú takir þennan penna í hönd, sýnir þennan vilja í verki og strikir yfir krónu á móti krónu skerðingu til handa öryrkjum?