148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

króna á móti krónu skerðingar.

[15:29]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Sú vinna sem er í gangi lýtur að því að taka upp nýtt greiðslukerfi til handa örorkulífeyrisþegum og er það ákvörðun ríkisstjórnarinnar að starfsgetumat verði gert samhliða. Búið er að skipa sérstakan samvinnuhóp eða pólitískan hóp til að fara í þá vinnu.

Vonir standa til að þeirri vinnu sem er að fara af stað verði lokið strax á haustdögum. Það er gríðarlega mikilvægt að aukningar til örorkulífeyrisþega komist sem fyrst til framkvæmda. Gert er ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun að á næsta ári verði aukning til örorkulífeyrisþega og þess vegna er mikilvægt að þeirri vinnu ljúki sem fyrst sem miðar m.a. að því að kanna hvernig hægt sé að efla starfsþátttöku örorkulífeyrisþega. Og þar undir, í þeirri vinnu, er m.a. ætlunin að ræða það hvenær og hvernig afnema eigi krónu á móti krónu skerðingar. Það er gríðarlega áríðandi, eins og hv. þingmaður bendir á.

Hv. þingmaður talaði um aldraða í þessu sambandi og þá er vert að nefna að fram fór vinna á meðal aldraðra sem miðaði að því að endurskoða almannatryggingakerfi sem lýtur að þeim hópi. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson leiddi þá vinnu á sínum tíma. Hið sama er áætlað að gera gagnvart örorkulífeyrisþegum. Ég segir það hér og segi það aldrei nógu oft að það er gríðarlega mikilvægt að sú vinna geti gengið hratt og örugglega fyrir sig. Ætlunin er að henni verði lokið á haustdögum þannig að við getum farið að innleiða nýtt greiðslukerfi þegar kemur að örorkulífeyrisþegum, sem mun þá væntanlega afnema krónu á móti krónu skerðinguna.