148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

króna á móti krónu skerðingar.

[15:32]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er gert ráð fyrir fjármagni á næsta ári til aukningar til handa örorkulífeyrisþegum. Í þeirri vinnu sem fram undan er er ætlunin að ræða með hvaða hætti (Gripið fram í.) því verður ráðstafað. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að króna á móti krónu skerðingar verði til umræðu og hvernig við getum afnumið þær. Ætlunin er að endurskoða almannatryggingakerfið þegar kemur að örorkulífeyrisþegum með það að markmiði að afnema krónu á móti krónu skerðingarnar.

Þess vegna segi ég og segi aftur: Ég vonast til þess að sú vinna geti gengið hratt og örugglega fyrir sig þannig að við getum náð því sameiginlega markmiði sem ég held að flestir hafi hér inni, ef ekki allir, vonandi, að afnema krónu á móti krónu skerðingarnar og hvetja til aukinnar starfsþátttöku örorkulífeyrisþega á vinnumarkaði. Minn pólitíski vilji stendur til þess. Ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um það. En þessari vinnu þarf að ljúka. Þetta þarf að gerast samhliða. Þess vegna er mikilvægt (Forseti hringir.) að hún komist af stað og verði unnin hratt og vel. Í þeim vinnuhópi á einmitt samflokksmaður (Forseti hringir.) hv. þingmanns sæti. Ég vonast til þess að vinnan geti gengið vel og hratt fyrir sig. (Gripið fram í.)