148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

stefnumótun í fjármálaáætlun og fjárlögum.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að svara þessari spurningu játandi og vísa til þess sem kemur fram undir einstökum málefnasviðum í fjármálaáætluninni. Síðan geta menn auðvitað haft ólíkar skoðanir á því hversu langt eigi að ganga til þess að útfæra þetta nákvæmlega.

Þegar upp er staðið kallast fjármálaáætlunin, og stefnumörkunin sem þar birtist, á við skýrslugjöf sem kemur til þingsins frá ráðherrum. Þá reynir á hvort ráðherrarnir ná þeim tímasettu markmiðum sem tilgreind eru í fjármálaáætlun undir einstökum málefnasviðum og eins líka hvort framvindan, sem á að gera reglulega grein fyrir í þinginu, er í samræmi við það sem segir í stefnunni.

Varðandi það sem hv. þingmaður segir um fjárveitingavaldið er það algjörlega skýrt að það liggur hjá þinginu. Mér fannst hv. þingmaður vera að gefa í skyn að hendur þingsins væru einhvern veginn bundnar með því að lögin fjölluðu um að fjárlagafrumvarpið ætti að vera í samræmi við fjármálaáætlunina eins og hún er kynnt í þinginu. En þarna er aftur komið að því að við erum ekki að gera annað en að reyna að byggja undir ákveðinn trúverðugleika. Ef það gerist ítrekað að þingið afgreiðir fjármálastefnu og kemur í kjölfarið með fjárlagafrumvarp og fjárlög sem eru algjörlega í andstöðu við það sem þar hefur komið fram er í sjálfu sér ekki verið að fremja eiginlegt lögbrot vegna þess að fjárlögin trompa auðvitað ávallt þá þingsályktun sem fjármálaáætlunin er, en menn grafa undan trúverðugleikanum sem er verið að reyna að byggja upp með því að láta þessa hluti kallast á.