148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

stefnumótun í fjármálaáætlun og fjárlögum.

[15:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það snýst mikið um trúverðugleikann, það er alveg rétt, það segir ráðherra, og skýrslugjöfina sem ráðherra á að skila þinginu. Nú kemur það upp að í kynningu ráðuneytanna fyrir fjárlaganefnd segir hæstv. sjávarútvegsráðherra að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að endurnýja hafrannsóknarskipið sem er nafni fjármálaráðherra, Bjarna Sæmundsson. En engar upphæðir er um það að finna í fjármálaáætlun. Hæstv. sjávarútvegsráðherra segir einfaldlega að ekki sé peningur fyrir því í fjármálaáætlun. Þetta er það misræmi sem ég sé í fjármálaáætluninni. Settur er ákveðinn rammi, sett fram ákveðin stefna en stefnan passar ekki í upphæðum við rammann sem er gefinn. Ef það eru aðstæðurnar þýðir skýrslugjöf ráðherra nákvæmlega ekki neitt af því að hún er í raun og veru tómur tékki, útgjaldaramminn (Forseti hringir.) er í rauninni tómur tékki. Það er ekki búið að útskýra hvernig fyllt er upp í hann. Þá er ég ekki að biðja um sundurliðun í einstakar stofnanir o.s.frv., (Forseti hringir.) heldur spyr ég: Hvað kosta stefnan og markmiðin, hvernig útskýra þau rammastækkunina?