148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

rafmyntir.

341. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu yfirferð hjá hæstv. forsætisráðherra. Það er vissulega rétt sem hún segir, auðlindanýting er atriði sem við verðum að leggja töluvert mikla áherslu á að taka til greina í þessari umræðu. Hún er orðin töluverð, að mér skilst, en ekki hefur legið fyrir nein mæling á nákvæmlega hversu mikil hún er og það veldur mér áhyggjum. Ég veit að það eru fleiri, t.d. rekstraraðilar þeirra rafmagnsframleiðslustöðva sem þurfa að sjá fyrir þessu rafmagni, sem hafa líka áhyggjur.

Það er áhugavert með skilgreiningu Seðlabankans. Nú er hún takmörkuð að því leyti að hún nær t.d. ekki yfir snjallsamninga. Það sýnir svolítið að þetta er allt á iði. Þetta er svo ný tækni að það er verið að finna upp nýja hluti nánast á hverjum degi og því er mjög erfitt að negla niður nákvæma skilgreiningu. Þetta er eitt af því sem mun vefjast fyrir stjórnvöldum.

Vissulega er líka töluverð áhætta á peningaþvætti, einmitt út af þessu ógagnsæi, að þetta verði notað af skipulagðri glæpastarfsemi. Regluverkið er nauðsynlegt, en í ljósi þess hversu lítið er til af alþjóðlegri löggjöf er tækifæri fyrir Ísland til að leiða umræðuna um málið. Ég þykist vita að á Íslandi séu hagsmunaaðilar með svona starfsemi sem hafa áhuga á að taka þátt í að búa til góðan og almennan leikvöll fyrir þetta þannig að jafnvægi finnist milli þjóðarhagsmuna og þeirra nýsköpunarhugmynda sem eru málinu til grundvallar. Kannski ætti þessi hvítbók algjörlega að taka undir þetta en það að leita til hagsmunaaðilanna væri gott ráð.

Ég spyr að lokum hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra hvort ekki sé tilefni til að reyna að búa kannski til sérvinnuhóp um þetta sýndarfé eða rafeyri eða hvað á að kalla það sem tæki á tæknilegu þáttunum.