148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

rafmyntir.

341. mál
[15:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir að taka málið upp. Fram til þessa hefur sýndarfé borið einkenni áhættufjárfestinga fremur en gjaldmiðils í hefðbundinni merkingu. Enn sem komið er uppfyllir sýndarfé illa þau skilyrði sem við gerum til þess sem við notum til að geyma verðmæti, þ.e. hefðbundinna gjaldmiðla. Þetta byggir fyrst og fremst á framboði og eftirspurn og engin stjórnvöld eru ábyrg fyrir stöðugleika eða öryggi slíks kerfis. Það er á einhvern hátt eðli þess sýndarfjár sem við höfum séð nú þegar, við getum sagt að hluti af aðdráttarafli sýndarfjár sé að því er ekki miðstýrt, það lýtur ekki hefðbundnum gjaldmiðilsreglum, en um leið er þar af leiðandi mikil áhætta sem tengist notkun þess og mjög svo óstöðugt verð sem hefur einkennt sýndarfé sem hægt er að finna á vefsíðum þar sem hægt er að fletta upp verðgildi helstu sýndarfjármiðla. Nú er ég í nýsköpun orðanna. Þar kemur fram að þetta er mjög rokgjarn miðill.

Eins og ég nefndi áðan hefur þróunin í raun verið í algjörri andstöðu við það hvernig við höfum viljað þróa fjármálakerfið. Þarna verður til ákveðið skuggahagkerfi, getum við sagt.

Ég tek undir með hv. þingmanni sem nefnir hér að við þurfum á einhvern hátt að setja málið á dagskrá, kannski meira en bara að fylgjast með þróun mála úti í Evrópu. Ég nefndi áðan hvítbók um fjármálakerfið. Ég held að ég taki það bara með mér að kanna hvernig við getum tekið þetta til frekari skoðunar á vettvangi þingsins og framkvæmdarvaldsins. Hér á þingi á að taka til starfa framtíðarnefnd og kannski er þetta verkefni sem gæti átt heima þar í samvinnu við Seðlabankann, forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið því að það er mikilvægt að við séum mjög meðvituð um þá áhættu sem felst í notkun sýndarfjár en líka hugsanlega möguleika eins og hv. þingmaður bendir á.

Ég held að þetta sé ekki það síðasta sem við munum ræða (Forseti hringir.) um þessi mál.