148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

vinna íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar þriðja orkupakka ESB.

499. mál
[16:19]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn um vinnu íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar þriðja orkupakka ESB. Ég mun svara þeim þremur spurningum sem felast í fyrirspurninni.

Að því er fyrstu spurninguna varðar þá er því til að svara að helstu sjónarmið og hagsmunir Íslands sem snerta þriðja orkupakka ESB lutu að því að fá fram ákveðna aðlögun og undanþágur sem tækju mið af íslenskum aðstæðum og væru í samræmi við það hvernig fyrsti og annar orkupakki ESB voru teknir inn í EES-samninginn og innleiddir í landslög, fyrst með setningu raforkulaga árið 2003 og svo með síðari breytingum á þeim lögum.

Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í maí 2017 um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn eru Íslandi veittar ákveðnar undanþágur frá tilteknum gerðum þriðja orkupakkans og þær undanþágur eru byggðar á umboði frá Alþingi. Í fyrsta lagi fékk Ísland undanþágu frá kröfum þriðju raforkutilskipunar ESB um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja frá öðrum rekstri á orkumarkaði. Í okkar tilfelli þýðir það að innleiðing tilskipunarinnar kallar ekki á breytingar á núverandi eignarhaldi á Landsneti og allar slíkar breytingar geta verið á okkar eigin forsendum en ekki samkvæmt fyrirmælum ESB.

Í öðru lagi mælir ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir um að ef Ísland getur sýnt fram á erfiðleika við rekstur raforkukerfis síns eftir innleiðingu tilskipunarinnar er Íslandi heimilt að sækja um undanþágu til Eftirlitsstofnunar EFTA frá tilteknum ákvæðum tilskipunarinnar, m.a. um aðskilnað dreififyrirtækja. Er það m.a. byggt á þeim sjónarmiðum að Ísland er einangrað raforkukerfi í skilningi tilskipunarinnar.

Í þriðja lagi er Íslandi veitt undanþága frá öllum gerðum þriðja orkupakkans sem varða jarðgas, enda slíkur markaður ekki til staðar hér á landi.

Í fjórða lagi var samþykkt aðlögun fyrir EFTA-ríkin varðandi valdheimildir ACER, samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði. Hluti af þriðja orkupakkanum er sérstök reglugerð um ACER. Samkvæmt henni fær ACER ákveðnar valdheimildir til að leysa úr deilumálum milli landsbundinna raforkueftirlitsaðila, sem er þá Orkustofnun hér á landi, sem varðar flutning á raforku yfir landamæri. Innan EFTA-stoðarinnar er það ESA sem fær þessar valdheimildir. Það er í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins og byggir á fyrri fordæmum.

Að því er varðar almenna hagsmuni Íslands af því frelsi og samkeppni í raforkusölu sem innleitt var með fyrsta orkupakkanum í raforkulögum árið 2003 þá má benda á að árið 2011 var óskað eftir skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um fyrirtækjaaðskilnað á raforkumarkaði. Í skýrslunni kemur fram að með framangreindum breytingum, m.a. kröfum um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi orkufyrirtækja, hafi myndast samkeppni í sölu á raforku á Íslandi og það hafi haft í för með sér ávinning, bæði fyrir almenning og fyrirtæki í landinu.

Varðandi spurningar tvö og þrjú um aðkomu íslenskra stjórnvalda um mótun þriðja orkupakkans þá er því að svara að löggjöf ESB um þriðja orkupakkann er frá árinu 2009 og var í mótun árin þar á undan. Íslensk stjórnvöld fylgdust með þeirri vinnu og má nefna að í skýrslu iðnaðarráðherra sem lögð var fram á 135. löggjafarþingi árið 2007 kemur fram að tillaga þriðju raforkutilskipunar sambandsins hafi verið kynnt í september 2007 og í ársbyrjun 2008 verið kynntar frekari tillögur að tilskipunum á sviði orkumála. Iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið fylgdust náið með þróun þriðja orkupakkans á vettvangi ESB á þessum tíma og tók Ísland virkan þátt í starfi nefnda um orkumál á vegum EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Sjónarmiðum Íslands var komið á framfæri á þessum vettvangi og byggðist afstaða Íslands á að viðhalda þeim undanþágum og aðlögunum sem Ísland fékk við upptöku fyrsta og annars orkupakka ESB í EES-samninginn.

Í framhaldi af setningu þriðja orkupakkans árið 2009 hefur verið unnið á vettvangi EFTA að upptöku hans í EES-samninginn. Hefur Alþingi verið upplýst með reglubundnum hætti um þá vinnu sem falist hefur í samningaviðræðum við ESB um nauðsynlega aðlögun og undanþágur. Má hér t.d. nefna minnisblöð ráðuneyta til utanríkismálanefndar, dagsett 14. júní 2010, 10. febrúar 2012, 28. maí 2014, 27. júní 2014, 7. nóvember 2014, 9. janúar 2015, 23. febrúar 2015 og 27. júní 2016. Einnig hefur atvinnuveganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis verið upplýst um stöðu mála varðandi þriðja orkupakkann á undanförnum árum.

Í lokin langar mig líka að nefna að þetta mál hefur sýnt að ýmsar spurningar hafa vaknað. Mér finnst sjálfsagt að spyrja þeirra og finnst málið hafa þróast í rétta átt. Ég hef spurt einhverra af þessum spurningum sjálf, það var m.a. þess vegna sem ég fékk til mín á fund Ólaf Jóhannes Einarsson lögmann og í kjölfarið vann hann umrætt minnisblað sem hv. þingmaður kom inn á. Það hefur verið mjög upplýsandi. Í nafni upplýstrar umræðu, aðhalds og spurninga þá finnst mér málið í raun hafa unnist í rétta átt. Ég fagna því ef menn eru með spurningar og eftir atvikum (Forseti hringir.) áhyggjur, sérstaklega þegar þeim er hægt að svara með góðum gögnum.