148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

vinna íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar þriðja orkupakka ESB.

499. mál
[16:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirgripsmikið svar og vandað eins og hennar er von og vísa, það er mjög upplýsandi. Það hefur verið fylgst með þessu ferli frá upphafi. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort verið sé að reyna að slá einhverja pólitískar keilur af hálfu tiltekinna þingmanna innan Sjálfstæðisflokksins. Eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins komnir í samkeppni við Miðflokkinn í því hver er yfirlýsingaglaðastur gagnvart því að tortryggja EES-samninginn?

Ég vil hins vegar fagna þeim ákveðnu áherslum sem koma fram hjá hæstv. ferðamála- og iðnaðarráðherra, en líka þeim áherslum sem koma fram m.a. í skýrslu utanríkisráðherra um mikilvægi EES-samningsins, mikilvægasta viðskiptasamnings sem við Íslendingar höfum gert.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að þeir þingmenn sem tjá sig um samninginn geri það af ábyrgð og þeir geri það af festu og þeir geri það með rökum. Rökin eru þau að íslensk stjórnvöld hafa augljóslega (Forseti hringir.) verið á vaktinni þegar kemur að þessu, þau hafa verið að gæta hagsmuna Íslendinga, orkuneytenda hér heima. (Forseti hringir.) Ég vil sérstaklega fagna því.