148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

vinna íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar þriðja orkupakka ESB.

499. mál
[16:32]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar umræður. Það eru nokkur atriði sem mig langaði að koma inn á. Fyrst af öllu langar mig eiginlega að sameina sjónarmið hv. þingmanna úr Viðreisn annars vegar og Miðflokki hins vegar (Gripið fram í.) vegna þess að það sem hv. þingmenn komu inn á var alveg rétt. Það er annars vegar það að EES-samningurinn er okkur mjög mikilvægur og hins vegar að það er ekkert óeðlilegt og í raun eðlilegt, heilbrigt og hollt að spyrja spurninga hvað hann varðar og um það framsal sem sannarlega er fyrir hendi.

Við höfum auðvitað horft upp á Evrópusambandið þróast mjög frá því við tókum upp EES-samninginn. Og svo það sé líka alveg skýrt, ekki það að ég haldi að einhver sé í vafa um það, þá er það einmitt mín skoðun að það er EES-samningurinn sem er góður, en aðild að Evrópusambandinu ekki. Þess vegna finnst mér ekkert óeðlilegt við það að við lítum á það hvernig Evrópusambandið hefur þróast til hliðar við EES-samninginn. Hann er auðvitað orðinn 25 ára gamall. Það er sjálfsagt að meta reynsluna af honum.

Við erum með tveggja stoða kerfi, það er grunnurinn, það er það sem skiptir öllu máli. Við höfum horft upp á framsal, bæði hvað varðar persónuverndarmálin og fjármálamarkaðinn. Ef maður ætti að velja sér slag til að taka hvað varðar framsalið þá er það, eins og ég hef skilið það, í rauninni meira framsal en er í þessum þriðja orkupakka.

Hvort málið komi inn í þingið, þá er ég með það á minni þingmálaskrá. Það þarf hins vegar að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara áður en mitt mál kemur inn í þingið. Það er utanríkisráðherra sem leggur það fram, þannig að ég þori ekki að svara fyrir hans hönd hvort málið komi inn á þessu þingi eða ekki. En eins og ég segi þá er það alla vega á þingmálaskrá minni og væntanlega hjá honum líka.