148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. „Fólk deyr á biðlista“ var fyrirsögn blaðs um daginn og var um að ræða umfjöllun um einstaklinga sem bíða eftir því að komast inn á Vog. Í skriflegu svari frá heilbrigðisráðherra, þar sem ég spurði eftir biðtíma eftir sálfræðiþjónustu, sagði að biðtími eftir þeirri þjónustu væri allt að níu mánuðir. Sums staðar þurfa börn að bíða allt að fjóra mánuði eftir að komast að, en ráðherra telur ganga vel að byggja upp sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni um allt land. Ég dreg þetta hér fram þar sem við getum ekki látið þetta ganga svona. Samt er þetta svona.

Nú er verið að leggja niður starfsemi Geðheilsu – eftirfylgdar og ég, eins og flestir aðrir í þessum sal, fékk bréf frá Aldísi Þóru Steindórsdóttur þar sem hún biður um hjálp fyrir föður sinn sem verið hefur á biðlista um nokkurt skeið. Það eina sem hún biður okkur um er öruggt, viðeigandi framtíðarhúsnæði fyrir föður sinn.

Í nefndavikunni fengum við gesti sem ræddu um biðlista. Einn þeirra sagði við okkur: Ekki velta fyrir ykkur lengd biðlistanna, veltið fyrir ykkur hvað hefur gengið á, veltið fyrir ykkur hvað þið getið gert.