148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vek athygli á þingsályktunartillögu sem hv. þingmenn Haraldur Benediktsson og Vilhjálmur Árnason hafa, ásamt þeim sem hér stendur, lagt fram um endurnýjun vegarins yfir Kjöl í einkaframkvæmd. Tillagan snýr að því að samgönguráðherra hlutist til um að gerð verði forkönnun á umhverfisáhrifum og samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum framkvæmdarinnar, m.a. á ferðaþjónustu, byggðaþróun og náttúruvernd. Stefnt verði að því að undirbúningi framkvæmda ljúki fyrir 1. febrúar 2019 og framkvæmdir hefjist í beinu framhaldi.

Þar sem um einkaframkvæmd er að ræða er mikilvægt að benda á að framkvæmdin hefur ekki áhrif á forgangsröðun fram yfir aðrar mikilvægar samgönguframkvæmdir, þar sem um einkaframkvæmd er að ræða. Áhersla er lögð á að hér sé um ferðamannaveg að ræða.

Mörg rök hníga að því að endurbæta vegarkaflann. Má þar nefna öryggissjónarmið, byggðasjónarmið og sjónarmið um umhverfisvernd. Ljóst er að sívaxandi fjöldi ferðamanna reynir á innviði samfélagsins og því er mikilvægt að huga að fjárfestingum á því sviði. Ferðaþjónusta er lykilgrein í atvinnumálum landsmanna. Hefur ferðamönnum jafnframt fjölgað mikið yfir vetrartímann og nú er svo komið að ferðamannatíminn nær yfir allt árið. Þannig hefur tekist að jafna árstíðarbundnar sveiflur en enn er mikið verk óunnið.

Kannanir hafa sýnt að stór hluti ferðamanna ferðast aðeins um Suðurland og suðvesturhorn landsins þrátt fyrir að náttúruperlur og vænlega ferðamannastaði sé að finna hringinn í kringum landið. Með heilsársvegi yfir Kjöl er mögulegt að stytta til muna leiðina landshorna á milli og auðvelda þannig ferðir til Norðurlands og yfir hálendið og opna fyrir möguleika á þróun nýrra ferðamannaleiða.