148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Forvarnir eru af hinu góða og tengsl sem farsælastrar öldrunar og hæfilegrar hreyfingar eru öllum kunnar. Gögn úr víðtækum rannsóknum hníga í sömu átt. Þær stunda ýmsir sérfræðingar og hugsjónamenn. Samkvæmt doktorsrannsókn Janusar Guðlaugssonar á þessu sviði skilar dagleg hreyfing í 30 mínútur meiri afkastagetu og auknum styrk og aukinni hreyfifærni 60 ára og eldri. Styrkþjálfun, svo sem tækjanotkun og lyftingar ásamt þolþjálfun, hefur svipuð áhrif. Dagleg ganga í 30 mínútur í sex mánuði og nokkrir styrkþjálfunartímar í viku hverri lækkar blóðþrýsting og hefur jákvæð áhrif á önnur helstu blóðgildi. Þetta eru niðurstöður Janusar. Tilraunaverkefni í Reykjanesbæ með Heilsueflingu Janusar, eins og fyrirtækið heitir, á vegum bæjarins og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og fleiri lýsir afar góðum árangri samkvæmt víðtækum mælingum.

Nýlegt og sambærilegt verkefni á vegum Janusar og Heilsueflingar er skipulagt í Hafnarfirði og fleiri sveitarfélög hyggja á þetta forvarnastarf og annað skylt. En þá að fjárhagshliðinni.

Það kostar 12–14 millj. kr. á ári að búa um tvo einstaklinga á hjúkrunarheimili. Fyrir sama fé samkvæmt reynslu Reykjanesbæjar má seinka komu 80–100 einstaklinga á hjúkrunarheimili um heilt ár með þessum forvörnum. Séu einstaklingar sem ekki þurfa að vera á hjúkrunarheimili 100 í stað þessara tveggja, sparast 1.200 millj. kr. á ári. Ef þeir eru 1.000 þá sparast 12 milljarðar á ári.

Forvarnirnar eru sem sagt mjög árangursríkar. Fleiri eru að hyggja að þeim og frekari opinber stuðningur við þær eðlilegur. Við ættum að finna honum form af ríkisins hálfu sem allra fyrst og það er áskorun til þingsins og ráðherra.