148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni stöðu nýsköpunar hér á landi. Við stjórnmálamenn tölum gjarnan um það á tyllidögum hversu mikilvægt sé að hlúa að nýsköpun í samfélaginu, hversu mikið við reiðum okkur í raun á nýsköpunarfyrirtæki í uppbyggingu þekkingarþjóðfélags til framtíðar, að skapa hér verðmæt vellaunuð störf fyrir vel menntað, háskólamenntað, fólk og að efla menntakerfið okkar um leið til að sinna þörfum þessara vaxandi greina. Þarna teljum við auðvitað ein mestu vaxtartækifæri samfélagsins vera í ljósi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað hér á alþjóðavísu, m.a. með fjórðu tæknibyltingunni.

Það er hins vegar áhyggjuefni þegar við horfum til baka að á síðustu tíu árum hefur nær engin fjölgun starfa orðið í þessari atvinnugrein á Íslandi. Á sama tíma og við höfum skapað um 20.000 ný störf hér á landi hafa 14.000 störf skapast í ferðaþjónustu, 6.000 í opinberri þjónustu, en um 400 í þeim atvinnugreinum sem hér um ræðir. Við erum með nær óbreytta stöðu frá því fyrir áratug.

Hér fara einfaldlega ekki saman orð og efndir þegar kemur að pólitískum áherslum. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvar er metnaður stjórnvalda þegar kemur að því að hlúa að umhverfi nýsköpunar? Við tölum um það að við verjum 8 milljörðum af ríkisfjármunum til að styðja við nýsköpun og það marki forgangsröðun í þessu. Við verjum u.þ.b. 25 milljörðum á ári til stuðnings við landbúnað, svo að dæmi sé tekið í samanburði við það. Dæmi hver um sig hvorum megin vaxtartækifærin eru talin vera meiri.

Það er alveg augljóst að við erum ekkert að gera til þess að styðja við rekstrargrundvöll þessarar atvinnugreinar og ekkert þegar kemur að því mikilvægasta, sem er stöðugt rekstrarumhverfi, samkeppnishæft og lágt vaxtaumhverfi og stöðug mynt. Þar skila stjórnvöld auðu.