148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn á þetta mál. Þegar það var lagt fram síðast sat ég yfir 1. umr. og þeim áhyggjum og öðru sem þar var lýst og um leið ánægjunni vegna þessa að verið væri að koma þessu bráðabirgðaformi í lög. Það er ánægjulegt að heyra hversu jákvæð umræðan er og fólk virðist standa heilt að baki þessu máli í nefndinni, og auðvitað fleiri eðli málsins samkvæmt. Hver ætti að setja sig upp á móti því að fatlað fólk fái betri þjónustu?

Mér sýnist, þegar ég renni yfir nefndarálitið og eftir að hafa hlustað á þingmenn, að tekið sé vel undir allflestar veigamiklu ábendingar sem komu líka að hluta til fram síðast. Mér hugnast a.m.k. vel hvernig það er framsett. Það eru nokkur atriði, m.a. um mismuninn á grundvelli aldurs, sem mér finnst vera afar mikilvægt að tekið sé á. Það á ekki að skipta máli á hvaða aldri maður er sé maður fatlaður eða verði það á einhverjum tímapunkti í lífinu, og ótrúlega merkilegt að sett skuli hafa verið inn slíkt ákvæði við gerð málsins. En það er vel að tekið sé á því.

Sama er með starfsmennina, þ.e. þá sem taka að sér að vera aðstoðarfólk. Mér finnst að hér sé verið að reyna að ná utan um það, eins og hv. framsögumaður Ólafur Þór Gunnarsson fór mjög vel yfir. Það skiptir auðvitað máli og þetta eru áhyggjur sem hafa komið fram áður, bæði þegar málið var lagt fyrir nú og eins síðast. Það er afar mikilvægt að fólk sem tekur þetta að sér búi við góðar starfsaðstæður þó að það sé ekki alltaf á heimili fólks, það er auðvitað líka annars staðar. En að sá sem kaupir þjónustuna tryggi réttindi og aðbúnað sinn eða starfsmanns síns eftir því hvað á við hverju sinni.

Talað er um ráðningarsamband. Starfslýsingin í ráðningarsamningi hlýtur að þurfa að vera skýr. Borið hefur á því að þjónustan sé ólík á milli sveitarfélaga. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að samræmi sé á milli sveitarfélaganna, að trygging fólks varðandi umsýslu og réttindi sé fest, hvort sem það er í reglugerðarformi eða hvernig það er, að hún sé a.m.k. skýr og með eitthvert lágmark.

Hv. framsögumaður bætti við í andsvari að starfið ætti að fylgja öllum réttindum á vinnumarkaði. Það er mjög mikilvægt.

Annað atriði sem mér þykir mikilvægt er skilgreiningin á starfsemi einkaaðila, þ.e. að maður geti ekki hagnast á því að taka að sér slíka þjónustu. Mér finnst mjög mikilvægt að áréttað sé að það sé ekki hægt. Í rauninni á það bara að standa undir sér, ef hægt er að segja sem svo. Hér er verið að skerpa á því í breytingartillögu. Það er vel.

Aðeins varðandi börnin. Af því að við höfum talað um hugtök áður tek ég undir það sem nefndin hefur komist að niðurstöðu um, að þau ná yfir ótrúlega margt. T.d. er talað um innviði í öllum sköpuðum hlutum. Hér er tekið utan um þætti annars vegar varðandi börn með fjölþættar skerðingar og svo hins vegar börn með miklar þroska- og geðraskanir. Það er mikilvægt að setja það ekki undir sama hatt af því að þetta er auðvitað mismunandi vandi og minni hópur sem á við fjölþættan vanda að stríða, sem betur fer. Það var eitt af því sem mér þótti ágætt að sjá vel tekið undir.

Síðan langar mig að tala um áhyggjur Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er vissulega nokkuð sem við höfum rekið okkur á í gegnum tíðina. Við sem höfum starfað í sveitarstjórn getum ekki neitað því að þeir fjármunir sem ríkið hefur sett í mál hafa ekki alltaf dugað. Hér er ákveðið að hækka viðmiðið, að vísu ekki eins og sambandið óskaði eftir, úr 25% í 30%, en hins vegar á að endurskoða það og sjá hvernig það kemur út, sem er gott. Að skiptingin verði þá látin ganga yfir í tvö ár. Það er mikilvægt þegar við gerum svona samninga og sveitarfélögin þurfa að taka þátt að einhverju leyti, að við setjum á einhvern fastan tíma til endurskoðunar fyrir það sem komin er raunveruleg reynsla á.

Ég ætlaði svo sem ekki að lengja umræðuna. En ég er mjög ánægð, eins og aðrir sem hér hafa talað, með að málið sé komið á þennan stað. Ég held að því hafi ekki verið frestað til ógagns. Ég held að því hafi verið frestað til mikils gagns. Ég tel að margt hafi gerst og að umræðan fengið að þroskast og að málið sé margfalt betra núna en það hefði verið ef það hefði hlotið skemmri skírn þegar það var lagt fram síðast. Ég held almennt að fólk sé upplýstara og nálgist þetta á góðan hátt, mun frekar en tími var til síðast.

Ég gleymdi að segja eitt varðandi starfsmennina, þ.e. þá sem taka að sér að styðja við fólk varðandi NPA-þjónustu. Það er þetta með fræðsluna og að starfsfólkið geti aflað sér aukinna réttinda. Það er eitt af því sem ætti að styrkja slíkt vinnuumhverfi, styrkja sambandið á milli vinnuveitenda og þeirra sem veita þjónustuna. Ég held að það auki líkur á því að fólk staldri lengur við, því að þetta getur verið mismunandi mikið álagsstarf. Við þekkjum það úr slíkri þjónustu, þannig að það er mikilvægt atriði.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Málið er í mótun, það verður endurskoðað eftir tvö ár. Það snýst ekki bara um það að fólk eignist hugsanlega nýtt líf, frelsi, sé sjálfstæðara og geti tekið virkari og meiri þátt í lífinu. Málið snýst um að fólk hafi val að eins miklu leyti og þetta gefur tilefni til, og tækifæri til meiri samfélagsþátttöku. Ég held að það sé stóri punkturinn í þessu máli.