148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Nei, við höfum ekki fengið umsögn frá Landhelgisgæslunni. Við óskuðum eftir umsögn þaðan, en höfum ekki fengið hana. Það var vissulega til umræðu að fá fulltrúa hennar fyrir nefndina, en við höfum ekki fengið umsögn um málið frá henni. Innan greinarinnar sjálfrar hefur það komið margoft fram að öryggi sjómanna er undir þegar um ólympískar veiðar er að ræða svo það hefur legið fyrir í umræðunni um strandveiðar í raun og veru allt frá byrjun.

Varðandi svæðin þá eru þau vissulega ólík innbyrðis, ekki bara hvað varðar fiskigengd, heldur er mismunandi fjöldi leyfa á milli svæða. Svæði A var með 228 leyfi í fyrra, B 136, C 129 og D 111. Það er auðvitað ekkert fyrir séð hvernig þetta verður þegar menn hafa val um að velja daga, þegar gefur vel til veiða eru meiri möguleikar á að ná fullum skammti. Á þeim svæðum sem hafa kannski verið að fá fleiri daga og jafnvel allan mánuðinn hefur ekkert endilega verið róið hvern einasta dag, 16 daga, en magnið hefur ekki klárast innan mánaðar. Það getur auðvitað enginn séð fyrir hve mikið magn kemur í hverjum róðri eða hve margir bátarnir verða eða hvernig veðrið verður. Það verður alltaf veðrið, fiskigengd og sjómaðurinn sjálfur, hvað hann er aflasæll, sem ræður því hversu mikið magn fæst og hve margir róðrarnir verða innan hvers mánaðar. Það verður alltaf það sem ræður á endanum. En uppleggið er að allir sitji við sama borð, hafi 12 daga (Forseti hringir.) sveigjanlega innan hvers mánaðar, með það í huga að hvert og eitt svæði geti nýtt góða daga til að fá sem mest út úr róðri.