148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við teljum það auka öryggi sjómanna að hafa þennan sveigjanleika og heildaraflamagn á dag til strandveiða takmarkar auðvitað það sem má taka inn í hverjum róðri, rúm 650 kíló í slægðum afla. Menn sem hafa möguleika á að velja 12 daga innan mánaðarins eru auðvitað rólegri en annars væri ef það hangir yfir höfði þeirra að það magn sem er ætlað í hvert hólf verði hugsanlega búið eftir einhverja X daga. Það róar alla þá sem eru á strandveiðum þótt hver og einn, eins og ég sagði áðan, verði auðvitað að bera ábyrgð á sjálfum sér þegar upp er staðið eins og í sjómennsku yfir höfuð. Ég tel að þetta fyrirkomulag rói mannskapinn. Við höfum einn pott og menn eiga ekkert í þessum efnum eitthvert magn sem er sett í þetta hólf eða hitt hólf eða hvernig sem það er, menn eru ekkert að taka frá hver öðrum.

Til strandveiða er áætlað ákveðið magn. Það getur aukist ef heimildir losna í kerfinu í lok sumars. Strandveiðar eru eina kerfið innan 5,3% kerfisins sem getur nýtt ónýttan afla, það er bara mjög gott, því annars myndi hann brenna inni. Strandveiðarnar hafa sýnt að bátarnir eru að koma með virkilega gott hráefni að landi. Hitt er mýta sem hefur haldist við. Fyrstu tvö árin var þetta kannski ekki nógu gott, en í dag ber öllum saman um að þetta sé frábært hráefni sem menn fá, ferskt, veitt á króka, og mjög eftirsótt til sölu erlendis og fer hratt með flugi jafnvel beint á markað innan skamms tíma.