148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:46]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er kannski ágætt að byrja á því að nefna að strandveiðikerfið er afskaplega vel heppnað kerfi. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að þróa það áfram til góðs fyrir þá sem stunda strandveiðar og fyrir byggðirnar út um allt land. Þeir eru til sem vilja gera þessu kerfi illt, en ég held að flestir sjái kosti þess að viðhalda því og styrkja. Strandveiðikerfið er á sama tíma kerfi sem er háð allt of mörgum skilyrðum og reglum. Ef sjávarútvegurinn allur væri háður jafn umfangsmiklum reglum og strandveiðarnar væri hann líklega ekki eins öflugur og raun ber vitni. Framtíðarþróun strandveiða verður að byggjast á því að ganga í átt til aukins frjálsræðis í öllu. Sú tilraun sem verið er að tala um að gera hér — margir hafa kallað þetta tilraun — er að sumu leyti skref í átt að sóknardagakerfi sem hefur verið farið fram á af hálfu hagsmunaaðila. Það gerir þetta að ágætu skrefi vegna þess að það virðist samræmast því sem fólk er að fara fram á. Þetta er kannski ekki nóg, ég ætla að fara í gegnum það svolítið.

Þegar við erum að skoða svona breytingar þurfum við að skoða alla þá hagsmuni sem eru til staðar og við þurfum að svara nokkrum grundvallarspurningum. Fyrsta er: Eru markmiðin góð og nær framlögð tillaga markmiðunum? Mun þetta valda skaða? Er hægt að ná markmiðunum betur með annarri nálgun?

Í þessu strandveiðifrumvarpi lá alltaf fyrir, að mínu mati, að markmiðin væru góð, að auka öryggi og fyrirsjáanleika, að minnka áhættu eftir því sem hægt er. Þetta er bara ágætt. En við þurfum svolítið að skoða hvernig markmiðin fara saman við pólitískan veruleika.

Þegar frumvarpið kom fram fannst mér það engan veginn til þess fallið að ná markmiðunum enda dró það með engu móti úr því kapphlaupi sem verið hefur í gangi. Það er kannski ágætt að taka fram að ég held að þetta sé ekki ólympísk íþrótt þótt það hafi verið kallað ólympískt að mörgu leyti. En það er verið að reyna að slá met í dag og það er oft verið að fara út í alls konar veðri og stofna sjálfum sér í hættu.

Í staðinn fyrir að ná þessu markmiði virtist það aðallega hafa þau áhrif að styrkja stöðu svæðis A fram yfir önnur svæði, það er var með öllu óásættanlegt. Varamaður minn, sem kom inn fyrir mig í nokkrar vikur, Álfheiður Eymarsdóttir, barðist ötullega fyrir því að þetta yrði lagað. Ég vil þakka henni fyrir að sinna þessu máli af mjög miklum krafti í fjarveru minni. Ég kom hingað aftur til landsins í gærmorgun og hef verið að fylgjast með þessu úr fjarlægð. Það er erfitt að setja sig inn í svona flókið mál, en engu að síður held ég að niðurstaðan verði ágæt. En förum yfir þetta.

Gagnrýnendur frumvarpsins hafa náð árangri til breytinga. Í meðförum nefndarinnar komu fram ágætistillögur og gagnrýni. Gerðar voru breytingar sem koma fram í nefndarálitinu. Ég samþykkti þær með fyrirvara, samþykktin var vegna þess að breytingarnar eru góðar en fyrirvarinn vegna þess að þær eru ónægar.

Á þeim tímapunkti þegar nefndarálit var afgreitt var orðið ljóst að búið væri að taka á gagnrýni Félags smábátaeigenda og annarra með breytingum sem virtust vera ásættanlegar fyrir hagsmunasamtökin og helstu hagsmunaaðila. Einnig var ljóst að það er enginn áhugi til staðar pólitískt að íhuga frekari úrbætur á þessum tímapunkti, en vonandi getum við samt fært þetta aðeins lengra áfram. En samspil þessara staðreynda gerir það að verkum að kannski þýðir lítið að gelta og skammast. Ég mun reyna að færa rök fyrir því að við náum fram aðeins fleiri skrefum og svo vona ég að við getum tekið þetta inn í atvinnuveganefnd milli 2. og 3. umr. og lagað herslumuninn, það sem vantar upp á, til þess að þetta verði gott.

Þegar við skoðum hvort markmiðunum verði náð skoðast það út frá því hvort aðstæður til kapphlaupsins séu enn til staðar. Það dugar ekki að skoða bara heildarkerfið. Við verðum að skoða svæðin hvert fyrir sig með hliðsjón af aðstæðunum sem eru til staðar á hverju svæði. Tryggingin fyrir tólf dögum dugar klárlega á svæði A miðað við núverandi aðstæður sem nýtur mest góðs af þeirri aukningu sem verður til. En úr því að búið er að gagnrýna mikið aukninguna sem fer þangað verð ég að minnast á að ég hef farið aðeins yfir tölfræðina um það hversu mikil veiði verður hjá hverju skipi. Það verður að segjast eins og er að veiðin hjá skipum á svæði A hefur verið minni einmitt vegna þess að dagarnir hafa verið færri; það hefur verið skorið á miklu fyrr á svæði A vegna þess að mörg skip eru um tiltölulega lítinn pott þar. Það er því alveg málefnalegt og rökrétt að auka mest þar.

Það lítur út fyrir að svæði B og C, út frá gefinni reynslu og þeirri tölfræði sem við höfum, muni skila mjög svipaðri niðurstöðu, en kannski er aðeins meiri trygging fyrir ákveðnum hlutum. Aukareglan um að ufsi teljist ekki með í aflahámarki mun koma til með að auka aflaverðmæti fyrir fólk á svæðum B og C þannig að þetta kemur, held ég, ágætlega út fyrir svæði B og C líka.

Svæði D lítur aftur á móti út fyrir að hljóta lítilvægan skaða af þessu fyrirkomulagi. Hversu mikinn er stóra spurningin. Það er mjög líklegt að það verði skaði og orðið „líklega“ skiptir máli, vegna þess að tölfræðin bendir til þess að skaðinn sé ekki öruggur heldur einungis líklegri en ekki í einhverjum tilfellum. Það mun ekki endilega vera fyrir alla sem starfa á svæðinu, sérstaklega ekki þá báta sem hafa verið að koma með minna af afla í land, heldur meira fyrir þá báta sem hafa verið að koma með mest í land á undanförnum árum. Það skýrist af því að veðuraðstæður eru öðruvísi á svæði D og erfiðara hefur reynst að ná miklum afla. Fyrir vikið eru bátar á svæði D oft með töluvert meiri sókn eða fleiri daga en aðrir. Ég er nú með þetta hér einhvers staðar. Svæði D hefur að meðaltali frá 2010 verið með 54 sóknardaga til samanburðar við svæði A sem hefur verið með um 30. Þannig að þetta er erfiðara svæði. Vissulega er meiri hætta á því að fleiri bátar muni skaga upp í hámarkið.

Mér sýnist einnig að á svæði D muni verða afgangur út frá ætluðum aflaheimildum. Tölfræðin sýnir líka að það hefur verið tilfellið undanfarin ár. Á móti kemur að sumir bátar, og sérstaklega þeir sem hafa verið að skila minni afla áður, muni fá meira en áður með þessum breytingum, þannig að það vegur upp á móti í þessu.

Ufsareglan held ég að komi til með að hafa mest jákvæð áhrif á svæði D en umfang hennar er erfitt að meta fyrir fram. Við vitum ekki nákvæmlega hver áhrifin eru þannig að við getum ekki látið ufsaregluna vega mjög þungt í matinu á því hvort þetta valdi skaða.

Jákvæð aukaverkun er sú að ufsareglan dregur úr tilhneigingu til brottkasts. Það er ágætt út frá umhverfissjónarmiðum og því að geta almennt aukið aflaverðmæti, vegna þess að það eru fleiri þorskígildistonn sem koma í land og jafnvel fleiri þorskar.

Nú beinist mikil tortryggni að stoppákvæðinu, að ráðherra en ekki lengur Fiskistofa samkvæmt breytingartillögunum geti stöðvað veiðar ef aflaheimildir eru að klárast. Ráðherra hefur ekki, samkvæmt ákvæðinu, rétt til að stöðva veiðar eftir eigin hentisemi heldur þyrfti væntanleg að koma einhvers konar rökstuðningur með því. En með tilfærslu frá Fiskistofu til ráðherra skapast pólitísk ábyrgð á stöðvun. Ég vona að slík ábyrgð og tilheyrandi reiði, sem mun auðvitað koma í kjölfar slíks, verði til þess að minni líkur verði á því að stöðvun eigi sér stað nema mjög brýna nauðsyn beri til.

Það er líka rétt að athuga að vegna þess hvernig fiskgengdin er og hvernig veðuraðstæður eru þá er svæði D yfirleitt seinna á tímabilinu en önnur svæði. Svæði B hefur að vísu svipaða tilhneigingu. Því er líklegast að hugsanlegt stopp hafi áhrif á svæði D. Viðbótin um þúsund tonn, sem er tilfærsla frá línuívilnun, sem er búið að lofa að muni koma, ásamt ufsareglunni, ætti að koma til móts við þær aðstæður. Tölfræðin sýnir jafnframt að þetta eigi að ná yfir stærstan hluta þess sem upp á vantar. Það er því ýmislegt sem búið er að ná fram með breytingum sem ég róast yfir.

Ég trúi því, út frá því sem fyrir liggur, að svæði A, B og C muni koma vel út úr þessum breytingum og að gagnvart þeim svæðum muni frumvarpið ná markmiði sínu. Ég er ekki sannfærður um að svæði D muni ekki bera skaða af. En út af því að ég er svolítið kominn ofan í þessa tölfræðigreiningar þá vildi ég fá einhvers konar sennileikamat eða hver væri líklegur hámarksskaði. Út frá þeim tölum sem ég hef, sem eru kannski ekki fullkomnar, þá hugsa ég að það sé mest 15%, bæði í því magni sem um ræðir og fjölda veiðidaga og það er út frá ýktustu tilvikum. Þetta ætti því að vera ágætt fyrir flesta. En þetta er of mikill hámarksskaði. Þess vegna verðum við kannski að reyna að finna leiðir til þess að bæta þetta enn frekar.

Svo að ég segi aðeins meira varðandi ufsaregluna: Hún kemur inn í þetta sem mjög ófyrirsjáanlegur bónus. Það er ekki hægt að spá fyrir um nákvæmlega hversu miklu hún muni skila. Tölur sem ég hef heyrt eru á bilinu 300 tonn upp í 700 tonn, kannski verður það meira út af því að nú skapar þetta öðruvísi efnahagslega hvata líka. En auðvitað er þetta takmarkað líka af því hvað skipin ráða við og hversu mikill ufsi finnst. En þetta gæti verið nóg til þess að uppræta alla áhættuna ásamt því að það dregur úr líkunum á því að fólk sé að sækja í brælu, sækja undir fjöll; einhverja þaraþyrsklinga og eitthvað sem lítil verðmæti eru í. Þannig að það er ágætt.

Til þess að reyna að slá á hugsanlegan skaða sem verður af lagði ég til að kannski væri hægt að fara í tvær breytingar. Önnur væri sú að ráðherra hefði þá heimild til að fjölga dögum á tilteknum svæðum ef útlit yrði fyrir afgang. Sú tillaga hefur ekki hlotið góðan hljómgrunn. Hin tillagan er að lokunarheimildinni verði breytt þannig að ráðherra gæti lokað einstökum svæðum tímabundið á grundvelli jafnræðis, þ.e. ef eitthvert svæði væri búið að ganga svo á pottinn að útlit væri fyrir að önnur svæði myndu fá litið sem ekkert gæti ráðherra jafnað það út með handstýringu. Þetta er meira inngrip en ég myndi almennt leggja til, en aftur á móti er þetta svolítið skrýtið kerfi og kannski ástæða til að endurskoða pottana sjálfa á einhverjum tímapunkti; kannski, eins og margir hafa lagt til, að það verði einhvers konar hámark eða kannski einhver grunnur. Það má útfæra þetta með ýmsu móti. Ég vona að pólitískur vilji verði fyrir því að taka þá umræðu og reyna að finna jafnvægi milli svæða eða jafnvel uppræta svæðakerfið með öllu sem er önnur nálgun.

Eins og ég segi: Þetta er ekki fullkomin lausn, en þetta er einhvers konar neyðarúrræði, eins og stöðvunarákvæðið er almennt. Ég hugsa að þetta myndi duga til þess að uppræta alla áhættuna sem er til staðar gagnvart svæði D. Ég vona því að þetta verði skoðað betur milli 2. og 3. umr. Í raun snýst þetta eingöngu um að bæta við orðum miðað við breytingartillöguna sem hér liggur. Þar segir: „Ráðherra getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar ...“ — Það þyrfti að bæta við orðunum „á einstökum svæðum“. Ég hugsa að þetta sé ekki það umfangsmikið að það ætti að valda miklum áhyggjum.

Ég samþykkti nefndarálitið með þeim fyrirvara að við getum gert betur. Ég trúi því að frumvarpið með breytingum nefndarinnar muni ná flestum markmiðum en ekki öllum. Ef við getum gert aðeins betur milli 2. og 3. umr. ættu allir að geta verið sáttir. Ég þekki það af ótrúlega mörgum tölvupóstum sem ég hef fengið frá strandveiðisjómönnum, Facebook-skilaboðum og ýmsu öðru, að það eru margir sem hafa mjög miklar áhyggjur af þessum breytingum. Í raun er fyrsta tilhneiging mín að reyna að berjast til síðasta blóðdropa til þess að reyna að ná fram eins miklu frjálsræði og hægt er. En á móti kemur að þetta frumvarp er sett fram til þess að ná mjög tilteknum markmiðum. Ég skil þau markmið. Ég er sammála þeim markmiðum. Þó svo að við séum ekki að leysa allan vandann nú þá munum við vonandi gera það jafnvel strax í haust. Ég vona að stuðningur verði við það.

Þetta hefur verið kallað tilraun. Tilraunir sem þessar eru af hinu góða. Þetta er auðvitað tilraun þar sem afkoma fólks er að veði. Það er fólk sem reiðir sig á þessar strandveiðar til þess hreinlega að eiga í sig og á. Það er því algjörlega nauðsynlegt að við vöndum okkur. Það er ákveðin tímapressa í ljósi þess að strandveiðitímabilið fer að hefjast. Við rekum okkur svolítið áfram á þeim grundvelli, en við megum ekki láta það vera tylliástæðu til að skoða ekki allar tillögur sem koma fram og leyfa okkur að eiga umræðuna eins ítarlega og hægt er. Við getum alveg unnið fram á nótt ef þörf er á. Við vílum það ekkert fyrir okkur frekar en sjómennirnir sjálfir.

Það sem er lagt til virðist vera til bóta að flestu leyti. Ég undirstrika að áhætta er til staðar. Það er ekki öruggt að þetta muni takast. Það liggja fyrir tillögur frá mér og kannski frá öðrum um hvernig draga megi úr áhættunni. Verði frumvarpið að lögum án slíkra breytinga þá mun árangurinn dæmast af niðurstöðunum. Sem betur fer er þetta gert í tilraunaskyni til eins árs. Ef allt fer á versta veg þá höfum við næsta ár til að endurskoða þetta. Ef við komumst ekki að betri niðurstöðu förum við alla vega 2019 yfir í sama kerfi og er í gildi núna. Það er alltaf hugsanlegt að áhættan raungerist ekki og það er yfirleitt það sem gerist í raunveruleikanum. Við eigum aldrei að stunda veðmál með afkomu fólks ef hægt er að komast hjá því, en þetta er, held ég, góð tilraun. Við getum betur, en þetta er skref sem er ágætt að stíga. Með þeim fyrirvara að það verður auðvitað að draga frekar úr líkunum á skaða á svæði D.

Skoðum tölfræðina. Vinnum þetta betur, en stígum þetta skref og síðan fleiri skref.