148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[17:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að því fólki sem á afkomu sína undir þessu máli, eins og hv. þingmaður orðaði það, vilji stunda svona veðmál með lifibrauð sitt. Ég held að það hafi orðið lítils vísari um hvað þingmaðurinn var að fara með þessari óútfærðu og óljósu tillögu sinni. Það er ekki gott að koma með óljósar og óútfærðar tillögur þegar um afkomu fólks er að ræða og að stunda veðmál um svo viðkvæma hluti.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að pólitísk ábyrgð hæstv. ráðherra er mikil. Hv. þingmaður sagði að ráðherra hefði úrræði til að bæta við. Það er þá að því gefnu að eitthvað sé til í þessum 5,3% potti. Það eru fordæmi fyrir því frá síðasta ári þegar hæstv. ráðherra, sem þá sat í ráðuneytinu, bætti 500 og eitthvað tonnum, ef ég man rétt, við það sem þá var til ráðstöfunar. Nú er búið að taka 1.000 tonn fyrir fram af því sem ekki er talið að muni nýtast í línuívilnun, og úthluta þeim. Það er því örugglega búið að vega verulega að því svigrúmi sem veður nú í lok fiskveiðiárs þegar þessar veiðar fara fram, til þess að stunda einhverjar frekari æfingar í þeim efnum.

Ég held að hægt sé að fullyrða að ráðherra sé mjög þröngur stakkur skorinn, í það minnsta varðandi frekari skref. Ef þetta færi með þeim óljósa hætti í þeirri óvissu sem málið er í allt í heild, að aflaheimildir myndu klárast tiltölulega snemma á tímabilinu, þegar kannski væri (Forseti hringir.) einn fjórði eftir eða eitthvað slíkt, t.d. þegar ágúst væri eftir, hefði hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að loka yrði gagnvart misræmi á milli svæða (Forseti hringir.) og gagnvart þeim sem (Forseti hringir.) reyna að stunda þessar veiðar allt sumarið?