148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[17:14]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Kannski rétt að ég taki fram að þessi tillaga var í rauninni tilraun til þess að reyna að tryggja að allir fái eðlilega og jafn mikið í sinn hlut og út frá þeim raunveruleika að svæðin eru sótt á mismunandi tímum. Það er einkum á B-svæði og D-svæði sem menn sækja kannski seinna, það gerir að verkum að það eru til tilfelli þar sem ákveðins ójafnræðis gæti gætt.

Í tillögu minni felst aftur á móti kannski ákveðin gagnrýni á það fyrirkomulag að veiðar skuli vera stöðvaðar á annað borð. Ég er ekki á móti því að til sé neyðarhemill í kerfinu, en þessu verður að fylgja pólitísk ábyrgð sem ég ræddi áðan. Kannski er þetta fráleit tillaga hjá mér. Ég er algjörlega til í að sætta mig við það. En engu að síður hljótum við að geta gert betur. Vissulega er það frekar leiðinlegt ef það er búið að lofa öllum 12 dögum og síðan kemur einhver stöðvun sem veldur því að það næst ekki. En hugsunin hjá mér var ekki endilega sú að menn myndu ekki fá þessa 12 daga, heldur að það myndi vera einhvern veginn jafnað út, fólk á ákveðnum svæðum beðið um að bíða. Kannski er það líka ósanngjarnt. Kannski var þetta röng og fáránleg tillaga. Ég skal alveg samþykkja þann möguleika.

Eina sem ég er að biðja um er að þetta verði rætt betur, að við reynum að finna einhverja góða leið til þess að tryggja að öll svæðin fái sem mest. Og auðvitað liggur lausnin í því að ráðherra bæti við í pottana ef þannig fer að ekki fái allir allt sem þeim er lofað í dögum talið vegna þess að það yrði auðvitað afleitt ef allt í einu fengju öll svæðin nema svæði D 12 daga vegna stöðvunarskyldunnar.