148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[17:17]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sem betur fer séu allir vel meinandi í þessu máli. Það er vilji fyrir því að bæta þetta kerfi þannig að allir njóti góðs af. Það er auðvitað þessi týpíski pólitíski ágreiningur um það hvort hlutirnir komi til með að bæta ástandið og áhyggjur mínar endurspegla alfarið það að þetta snýst náttúrlega að lokum um sannfæringu hvers og eins þingmanns um það hvort breytingin muni skila tilætluðum árangri. Ég hef eins og ég segi enn þá einhverjar áhyggjur og vil leita lausna að því hvernig við getum gert þetta aðeins betur.

Þegar maður skoðar tölfræðina þá er mjög áhugavert að sjá hvað bátarnir skila mismiklum afla, sérstaklega bátar á svæði A, aflamestu bátarnir þar eru yfirleitt að skila í kringum 26 tonnum upp í 29 á meðan á svæði D skila aflamestu bátarnir kannski 28–44 tonnum. Þetta endurspeglar bæði hversu margir bátar eru á hverju svæði og hvernig er keppt um þessar auðlindir, en líka svolítið hvernig dagarnir hafa verið. Þegar maður skoðar meðalár á svæði D þá sést að þar gefast fleiri dagar, fólk fer oftar og nær kannski að skila meiri afla þó svo að róðurinn sé þyngri þegar upp er staðið. Vonin er auðvitað sú að þetta muni skila góðum árangri fyrir alla. Ég hef áhyggjur af því að það verði klippt á veiðarnar á röngum tíma, sérstaklega gagnvart þeim sem fiska svolítið seint á tímabilinu.