148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[18:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það styttist í að strandveiðar eigi að hefjast við Ísland og þeir sem þær ætla að stunda núna eru í ákveðinni óvissu með það hvernig kerfið muni starfa, eftir hvaða reglum eigi að fara í þetta sinn.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að vega þurfi og meta fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir, þar með talið strandveiða, með það að markmiði að tryggja byggðafestu og nýliðun. Þetta er eitthvað held ég sem við getum öll verið sammála um. Þetta 5,3% kerfi er samsett úr nokkrum þáttum og hafa verið gerðar heiðarlegar tilraunir til að reyna að breyta því á undanförnum árum, en án kannski mikils árangurs. Enda er það þannig að hér er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða. Rækju- og skelbætur hafa til að mynda verið umdeildar, hvort þær eigi enn rétt á sér eða hvort það sé kominn sá tími sem þær voru ætlaðar í. Um það er svo sem engum blöðum að fletta, en það hefur samt ekki tekist að breyta þessu.

Það hefur verið bætt síðan í kerfið. Við vorum með svokallaðan byggðakvóta sem er einmitt hugsaður í sama tilgangi. Síðan var bætt við svokölluðum byggðastofnunarbyggðakvóta sem er fyrst og fremst hugsaður sem ráðstöfunartæki og verkfæri fyrir Byggðastofnun til þess að geta brugðist við gagnvart svokölluðum brothættum byggðum. Það hefur vissulega borið árangur.

Þessi félagslegi þáttur kerfisins eins og það er hugsað er að mínu mati skrefið til þess að reyna að sætta sjónarmið vegna áhrifa þeirrar hagræðingar sem varð í sjávarútvegi, og er um 5,3% af heildaraflaheimildum sem við höfum til ráðstöfunar á hverju fiskveiðiári. Ein breyta hefur áhrif á allt hitt. Ef aukið er á einum stað þá þarf að taka það burtu annars staðar.

Ef maður hugsar aðeins aftur í tímann var gerð skýrsla, ég man ekki hvort það var fyrir tveimur eða þremur árum, af Háskólanum á Akureyri, af starfsmönnum þar, þar sem metin voru byggðafestuáhrif þessara verkfæra í verkfæraboxinu. Sú skýrsla var að því leyti ekki alveg fullkomin úttekt á kerfinu, en þá var tiltölulega stutt síðan svokallaður byggðastofnunarbyggðakvóti hafði verið settur í gang og það var ekki komin nægileg reynsla til að meta áhrif af því. En byggðafestuáhrifin mæld á öðrum þáttum kerfisins voru mest í línuívilnun. Þau skoruðu ekki mjög hátt í strandveiðunum. Þetta er hin fræðilega nálgun sem okkur ber auðvitað að horfa til í tengingu við þau markmið sem við setjum okkur með þessum félagslega þætti kerfisins.

Það er að því leyti til ekki í samræmi við stjórnarsáttmálann og ekki heppileg aðferðafræði heldur þegar við höfum þann texta til að vinna eftir sem fyrir okkur liggur, stjórnarflokkunum, að fara í svona plástraviðgerðir, að hreyfa við einum hlut í þessu kerfi án þess að horfa til heildarmyndarinnar. Það hafa vissulega fylgt núverandi kerfi ýmsir gallar. Ég ætla ekki að deila um áhrifin af því fyrir margar byggðir og einstaklinga og fjölskyldur. Ég held að enginn tali fyrir því að loka eigi þessu kerfi. Gallarnir hafa kannski fyrst og fremst birst gagnvart svokölluðu vestursvæði, svæðinu hérna fyrir Vesturlandi og Vestfjörðum. Þar hafa aflabrögð verið góð. Þar af leiðandi hafa fleiri bátar stundað þetta og það hefur skilað sér í því að það er mjög takmarkaður fjöldi daga sem menn geta róið. Við þessu þarf að bregðast að mínu mati, alveg klárlega, til að jafna stöðu þeirra sem róa af þessu svæði við stöðu þeirra sem róa annars staðar á landinu og reyna þannig að koma í veg fyrir þá mismunun sem hefur verið miðað við það hvernig þetta hefur verið útfært á undanförnum árum. Það er tiltölulega einfalt að bregðast við þessu núna þegar verið er að bæta umtalsvert í það magn sem má veiða í strandveiðikerfinu.

Í nefndaráliti atvinnuveganefndar er farið yfir rökin fyrir þessum breytingum. Það sem mér finnst vera óheppilegt í þeirri nálgun á málið hér og nú, er að það er verið að gefa væntingar sem er alls ekkert víst að gangi eftir. Af hálfu þeirra hv. þingmanna sem skrifa undir þetta nefndarálit er mjög mikið talað um að vonast sé til, að reiknað sé með, jafnvel var tekið svo djúpt til orða hér af hv. formanni nefndarinnar áðan að það væri ekkert áhyggjuefni að magnið myndi klárast, ekkert áhyggjuefni. Það krefst auðvitað ákveðinna skýringa.

Til að nálgast þá gagnrýni sem ég hef á þetta mál vil ég vitna í nefndarálitið, með leyfi forseta, en þar segir m.a.:

„Að mati nefndarinnar hefur verið dregið verulega úr líkum þess að veiðar þurfi að stöðva með því að heildarheimildir til strandveiða hafa verið auknar. Að mati nefndarinnar eru allar líkur á því að þær viðbótarheimildir sem um ræðir tryggi að á öllum svæðum verði unnt að stunda veiðar í 12 daga alla mánuðina.“

Hver ætlar nú að kvitta upp á þetta? Nefndin gerir það. En það er háð því mati nefndarinnar að dregið hafi verulega úr líkunum á því og að það séu allar líkur á því o.s.frv.

Í öðru lagi segir hér:

„Einnig leggur nefndin til breytingu í þá veru að ráðherra en ekki Fiskistofa geti stöðvað veiðar þegar heildarafli skipa fer umfram magn sem ráðstafað er til strandveiða. Komi til þess að ráðherra þurfi að stöðva veiðar skiptir miklu að nákvæm greining verði gerð á áhrifum þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á sókn og þróun veiðanna yfir árið, einkum á möguleika strandveiða einstakra svæða.“

Ég fæ nú ekki alveg samhengi í þessar línur, virðulegur forseti. Það má vel vera að ég sé eitthvað takmarkaður í skilningi á þessu, en samt sem áður er það sagt alveg skýrt að það sé ráðherra sem geti stöðvað veiðarnar. Með öðrum orðum, gert er ráð fyrir því að hægt verði að stöðva þær, væntanlega á þeim tímapunkti þegar búið er að veiða það heildarmagn sem er til ráðstöfunar.

Í þriðja lagi segir hér:

„Fyrir liggur að í þeirri reglugerð sem ráðherra gefur út í kjölfar þessara laga er ekki eingöngu heimild fyrir ráðherra til að stöðva veiðar heldur einnig heimild fyrir ráðherra til að auka heildarveiði í samræmi við 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða svo að unnt verði að nýta 12 daga til strandveiða í maí, júní, júlí og ágúst á hverju landsvæði.“

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir mér það að verið er að gefa þeim sem stunda þessar veiðar, byggja sína afkomu á þessum verðum að hluta til eða jafnvel öllu leyti, miklar væntingar að mínu viti án þess að nokkur innstæða sé fyrir því nema ef og kannski. Það finnst mér alveg ómögulegt. Mér finnst það bara ekki ganga upp.

Í fjórða lagi segir hér:

„Með þessum breytingum telur nefndin að komið sé til móts við mörg þau sjónarmið sem komið hafa fram í umsögnum um málið eins og áhyggjur um að til stöðvunar komi í ágúst.“

Allt er þetta ef og kannski.

Virðulegur forseti. Það er ekkert uppnám í strandveiðikerfi okkar. Þetta hefur gengið alveg þokkalega þótt vissulega séu ákveðnir annmarkar á kerfinu. Kerfið var umdeilt á sínum tíma og það hefur verið gagnrýnt, sérstaklega staða vestursvæðisins á undanförnum árum. Ég held að það magn sem byrjað var með á sínum tíma hafi verið um 3 þús. tonn. Það leiðréttist þá af einhverjum sem man þetta betur. Í dag eru þetta orðin 11.200 tonn. Það er 2 þús. tonna viðbót fyrirhuguð frá síðasta ári. Til viðbótar við það kemur ígildi 500 tonna með því að breyta því að ufsi telst ekki með í kvótanum. Það er því verið að bæta við, virðulegur forseti, 2.500 tonnum, eða yfir 25% á þessar aflaheimildir í þessu kerfi, sem er alls ekki í neinu uppnámi og menn hafa rómað hér fram og til baka. Þá spyr ég: Hvað er það sem knýr á um að við breytum í slíkum grundvallaratriðum með mjög skömmum fyrirvara þessum þætti? Við ættum þess í stað að leita fyrst og fremst leiða í kringum þessa ríflegu og rausnarlegu viðbót upp á 2.500 tonn til að plástra inn í kerfið eins og það er til þess að mæta augljósum göllum, til að hjálpa þeim til þess að jafna þetta aðeins á milli svæða og láta stærri hluta af þeim aflaheimildum renna til þeirra á vestursvæðinu.

Ef það er hugmynd flutningsmanna með frumvarpinu að breyta strandveiðikerfinu í dagakerfi, í sóknarmark, þá þurfa menn að tala skýrt. Mér finnst stundum eins og það sé undirliggjandi tónn í þessari umræðu en farið í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut. Það væri auðvitað slík grundvallarbreyting að um þá leið þyrfti að taka miklu dýpri umræðu. Það er ekki hægt að gera það og er engan veginn eðlilegt að gera það á nokkrum dögum um það leyti sem þessar veiðar eru að hefjast í máli sem var kynnt fyrir hálfum mánuði síðan, eða innan við 20 dögum síðan.

Hv. þingmaður og vinur minn, Ásmundur Friðriksson, sagði áðan: Ég vona að magnið dugi. Við verðum að standa saman um að magnið dugi. Já, hvernig skyldum við þingmenn standa saman um það að þetta magn dugi? Ég átta mig ekki á því. Ég verð að segja það. Ég átta mig heldur ekki á því þegar hv. formaður nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, segir að það sé verið að tryggja öllum 12 daga hvar sem er á landinu með þessari leið og að breytan í kerfinu muni hér eftir verða aflabrögð og gæftir. Það er í aðra röndina verið að gefa fólk væntingar og segja: Við ætlum ekki að stoppa ykkur. Þá hljóta einhverjir að spyrja: Hvaðan á þá að taka þær heimildir ef hin dökka mynd gengur eftir sem margir óttast og ekki síst þeir sem búa á Norðausturlandi og Suðausturlandi? Þeir búa við þær aðstæður að veiðar hefjast seint á tímabilinu, veiða hlutfallslega meira seinna á tímabilinu en á fyrra tímabilinu, byggðir sem treysta mjög mikið á þetta, byggðir sem hafa verið í þeim flokki að vera kallaðar brothættar byggðir, eins og Borgarfjörður eystri, Breiðdalsvík, Stöðvarfjörður og það er víðar hægt að fara. Hvað ætla menn að segja við þá sem þar búa og hafa stundað þessar veiðar og þær skipta þá miklu máli, ef niðurstaðan yrði mögulega sú að magnið yrði bara búið í byrjun ágúst? Sá möguleiki er fyrir hendi. Það kemur fram í gögnum sem fylgja frumvarpinu að sá möguleiki er vissulega fyrir hendi. Það er verið að gambla með það, með þeim orðum að menn voni að þetta dugi allt saman og það verði að tryggja öllum dagana o.s.frv. Við þingmenn erum oft gagnrýnd fyrir það að gefa innihaldslaus loforð. Ég held að það sé kannski ágætt fyrir okkur að hugsa aðeins um það í þessu sambandi.

Virðulegur forseti. Enn og aftur. Ég sé enga ástæðu og engin málefnaleg rök, þau hef ég ekki fundið í umræðunni, fyrir því að gera þessa stóru breytingu á þessu kerfi núna, gera einhverja tilraun núna sem ekki er útrædd. Margir gestir sem komu fyrir nefndina fengu mjög misvísandi skilaboð þegar þeir lýstu áhyggjum sínum af því að magnið myndi ekki duga, og lýstu þar með andstöðu við málið. En þegar þeim voru gefnar væntingar um að það væri tryggt að hægt væri að veiða í 12 daga á öllum svæðum alla mánuðina, þá voru menn sáttir, eðlilega, komnir með opinn tékka á það.

Hvað þýðir það? Ég er búinn að ræða við marga smábátasjómenn á undanförnum dögum og fleiri. Menn eru sammála mér um að ef það væri upp á teningnum þá færu mjög margir inn í strandveiðikerfið sem annars eru í öðrum veiðum, sérstaklega við þær erfiðu aðstæður sem eru hjá mörgum litlum og meðalstórum útgerðum um þessar mundir, þar sem skuldastaðan er mjög alvarleg. Það var aumlegt að hlusta á lýsingu hv. þingmanns Samfylkingarinnar sem fór hér í ræðu fyrr í dag um þetta mál og alveg með ólíkindum að menn skuli ekki gera sér grein fyrir þeim vanda sem við okkur blasir og horfast í augu við hann. Margir munu freistast til þess að leigja jafnvel eitthvað af þeim kvóta sem þeir eiga eftir til þess að létta á fjárhagsstöðunni og fara inn í þetta kerfi þar sem maður getur gengið að aflaheimildum án þess að greiða fyrir þær. Það er bara mjög skiljanlegt.

Verum ekki að gefa einhverjar væntingar sem ekki er innstæða fyrir gagnvart þeim sem síst skyldi. Horfum á málið í heild. Fögnum því eftir því sem vera ber að hér er verið að auka magnið um 25% a.m.k., rúmlega það, á milli ára og deilum því út með þeim hætti að við mætum þeim rökstuddu sjónarmiðum sem hafa verið uppi í þessu kerfi, í gagnrýni á þetta kerfi, um ákveðna mismunun á milli svæða. Það er einfalt að gera það. Það er hægt að hafa þetta sem sérpott sem yrði dreift sérstaklega úr. Síðan klárum við þetta sumar og setjumst yfir endurskoðun á þessum félagslega þætti fiskveiðistjórnarkerfis okkar í haust og náum víðtækari sátt um það hvernig við ætlum að breyta því, einmitt til þess að uppfylla það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum um að tryggja byggðafestu og nýliðun í sjávarútvegi.