148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[18:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já þau orð voru líka sögð hér án ábyrgðar. Ég man ekki nákvæmlega hvað byrjað var með enda er það í sjálfu sér ekki aðalatriði málsins í dag heldur hitt að það hefur verið aukið við má segja nokkuð jafnt og þétt í gegnum tíðina.

Aðeins varðandi þennan 5,3% pott. Það sem ég vitnaði hér til áðan er endurskoðun sem fór fram á vettvangi atvinnuveganefndar að beiðni ráðherra; ég held í tvö eða þrjú ár á hverju ári, þar sem við vorum að reyna að nálgast það að taka utan um þessi 5,3% og hvernig við ættum að skipta þeim upp á milli einstakra flokka. Það sem ég var að segja er að þar var meðal annars rætt um að tímabært væri orðið að taka burtu rækju- og skelbætur. Ég beitti mér ekki fyrir því í nefndinni á þeim tíma og það varð ekki niðurstaða okkar að gera það. Það var reynt að gera þetta í sátt. Það er umdeilt. Það hefur tvær hliðar, þær bætur. Þannig að menn stigu ekki þau skref.

En það sýnir okkur kannski hversu viðkvæmt þetta kerfi er í heildina. Þegar þær hugmyndir komu upp fyrst að afnema þessar bætur og þá sérstaklega á rækjunni fremur en á hörpuskelinni, sem tæknilega reyndist síðan mjög erfitt, kvað við mikið ramakvein. Það er nákvæmlega það sem þetta snýst um. Ef þú hreyfir eina breytu eða breytir einu atriði hefur það áhrif á öll hin. Það eru alls staðar hagsmunir, í öllum flokkunum eru mjög ríkir hagsmunir þeirra sem eiga þar undir. Þess vegna þarf að nálgast það að mjög yfirveguðu máli, með málefnalegri umræðu og nálgun og með úttekt fræðimanna, hvernig á að þróa þessa skiptingu innan þessa kerfis.