148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum.

117. mál
[19:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þessa góðu þingsályktunartillögu sem kom, eins og hv. þingmaður nefndi, frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins fyrir tæpu ári, á ársfundinum sem var haldinn af Vestnorræna ráðinu í Alþingishúsinu og var eftirminnilegur og ánægjulegur. Þessi tillaga finnst mér mjög vel undirbyggð. Ef ekki er hægt að eiga samstarf á þessum vettvangi er kannski ekki mikið hægt að ræða um samstarf.

Oft hefur verið rætt um hvaða þættir koma helst til greina varðandi samstarf þessara þriggja vinaþjóða og mér finnst þetta vera eitt af þeim málum sem algjörlega standa upp úr, að við getum miðlað þekkingu og fræðslu á milli þessara þriggja sjávarútvegsþjóða norður í Atlantshafi við gjöful fiskimið. Það er mikilvægt til að auka verðmæti í sjávarútvegi í þessum þremur löndum að læra hvert af öðru. Við höfum öflugar menntastofnanir hér á Íslandi, en á Grænlandi og í Færeyjum eru líka menntastofnanir sem bjóða upp á nám sem snýr að sjávarútvegsfræðum svo mér finnst þetta mjög spennandi mál. Það verður gaman að fylgjast með því hvernig okkur tekst til.

Í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins verður örugglega framhald á umræðu um hvernig til tekst, við munum fylgjast grannt með því. Ég óska þess að þetta gangi allt sem best svo við getum nýtt okkar góðu háskólastofnanir og framhaldsskóla á þessu sviði varðandi skiptinema og að þekking og fræðsla í sjávarútvegi flæði á milli þessara þriggja vinaþjóða.