148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum.

117. mál
[20:07]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langaði að koma hingað upp til að fagna þessu nefndaráliti sem og þingsályktunartillögu Vestnorræna ráðsins. Hér er um mikilvægt mál að ræða, þarna er stórt tækifæri í að miðla einmitt af reynslu Íslendingar þegar kemur að sjávarútvegsmálum, hvort sem um er að ræða vinnslu afurða eða fiskveiðarnar sjálfar eða hvernig við stýrum kerfinu okkar sem er ekki síður til fyrirmyndar að mörgu leyti.

Í tillögunni eru taldir upp nokkrir skólar sem koma sannarlega til greina. Þar er talað um framhaldsmenntun í sjávarútvegi, t.d. er í boði BS-nám í sjávarútvegsfræðum í Háskólanum á Akureyri, diplómanám í fisktækni við ARTEK – fisktæknimiðstöðina í Sisimiut og í Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að vekja athygli á því flotta námi sem er í boði hjá Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Þar er m.a. um að ræða meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun sem er alþjóðlegt þverfaglegt meistaranám á sviði auðlindastjórnunar. Á heimasíðu Háskólasetursins stendur, með leyfi forseta:

„Að námi loknu þekkja nemendur hinar margvíslegu og verðmætu auðlindir hafs og stranda, skilja eðli þeirra og hafa tamið sér aðferðir og hæfileika til að stýra sjálfbærri nýtingu auðlindanna.“

Sömuleiðis hefst í haust, ef ég man rétt, alþjóðlegt, þverfaglegt meistaranám í sjávarbyggðafræði sem ég held að verði gríðarlega spennandi nám þar sem áhersla verður einmitt lögð á sjávarbyggðir við Norður-Atlantshaf og norðurskautssvæðið þó að fræðin kunni mögulega að hafa víðari skírskotun. Það nám mun einkum byggja á inntaki og aðferðum félagsfræði, hagfræði, mannvistarlandafræði og skipulagsfræði og að námi loknu eiga nemendur að hafa öðlast skilning á möguleikum og takmörkunum þróunar byggða við Norður-Atlantshaf og tamið sér aðferðir við að sjá fyrir og stýra þróun þeirra.

Ég held að þarna séu sömuleiðis gríðarlega mikilvæg tækifæri fyrir vestnorrænt samstarf við menntun í sjávarútvegsfræðum, að líta til þess sem er verið að gera fyrir vestan og í samstarfi við Háskólann á Akureyri, eins og ég sagði. Ég vona að það verði skoðað að nefna það líka af því að sérstaklega haf- og strandvæðastjórnunarnámið hefur skilað gríðarlega flottum árangri og koma nemendur alls staðar að úr heiminum til að læra af reynslu Íslendinga í haf- og strandsvæðastjórnun og miðla þeirri reynslu út um allan heim sem ég held að sé einstakt á landsvísu.