148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

ráðstefna um stöðu Íslands, Færeyja og Grænlands í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála.

118. mál
[20:20]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir nefndarálit utanríkismálanefndar um tillögu Vestnorræna ráðsins um að efnt verði til ráðstefnu um stöðu Vestur-Norðurlandanna í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála. Tillagan var samþykkt á aðalfundi ráðsins, að vísu ekki hér í Reykjavík, en á aðalfundi ráðsins árið 2016 eins og flutningsmaður gat um.

Það er ánægjulegt að nefndin skuli styðja hugmyndina í meginatriðum. Utanríkismálanefnd setur ef til vill fyrirvara við það að þing þjóðanna komi beinlínis að verkefninu en leggur á hinn bóginn áherslu á að fræðistofnanir á þessu sviði í vestnorrænu löndunum tengist verkefninu og það er eingöngu til að styrkja umgjörð þessa. Með þessari breytingu utanríkismálanefndar og breytingartillögu er þess vænst að ályktunin fái samþykki Alþingis fljótt og hægt verði því á vettvangi Vestnorræna ráðsins að vinna málið áfram.