148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

rannsóknir á örplasti í lífverum sjávar í Norður-Atlantshafi.

120. mál
[20:34]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir að flytja okkur nefndarálit utanríkismálanefndar og jafnframt umfjöllun hans um tillögu Vestnorræna ráðsins um rannsóknir á örplasti í lífverum sjávar í Norður-Atlantshafi sem samþykkt var í Reykjavík á ársfundi ráðsins í september í fyrra.

Utanríkismálanefnd tekur undir nauðsyn þess að hafnar verði rannsóknir á þessum brýna vanda sem svo mjög er fjallað um á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum og manna á meðal á hverju heimili um þessar mundir. Sú skoðun sem kynnt er í nefndaráliti utanríkismálanefndar og varðar umfang rannsóknanna í upphafi hljómar raunhæf og styður sá sem hér stendur nálgun af því tagi. Því ber að fagna að utanríkismálanefnd tekur mjög jákvætt í tillögu Vestnorræna ráðsins og leggur til að hún verði samþykkt óbreytt.

Frú forseti. Þess er vænst að tillagan fái góðan framgang hér á Alþingi. Síðan er það vettvangur Vestnorræna ráðsins að bera málið áfram og leita eftir þeirri niðurstöðu sem við hæfi þykir.