148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Samgöngumál og endurbætur á því sviði eru eitt af þeim stóru viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir og nauðsynlegt er að taka föstum tökum. Víða er ófremdarástand, ekki síst hér á suðvesturhorninu. Mikið er rætt um nauðsyn þess að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og það er hárrétt. Að mínu mati er hins vegar tómt mál að tala um að ljúka henni áður en greitt er úr umferð um Hafnarfjörð og Garðabæ. Íbúar í Hafnarfirði og Garðabæ geta ekki lengur búið við óbreytt ástand. Framkvæmdir sem greiða varanlega fyrir umferð um þessi tvö sveitarfélög eru arðsamar en kannski ekki síst mikilvægar til að draga úr slysahættu og auka lífsgæði íbúanna.

Ríkisstjórnin og hæstv. samgönguráðherra hafa vægast sagt ekki verið mjög skýr um áform sín í samgöngumálum. Það eina sem má lesa út úr því sem sagt hefur verið er að stórsókn sé fram undan. Um leið er erfitt að sjá merki um þá sókn í fjármálaáætluninni. Þá hefur það verið upplýst að samgönguáætlun verði ekki birt fyrr en í haust.

Það þarf og á að horfa til varanlegra lausna. Á báðum stöðum á að horfa til þess að setja umferð í stokk. Umferðin um hringtorgið við Setberg í Hafnarfirði er að nálgast umferðarþungann í Ártúnsbrekku í Reykjavík. Hringtorgið er með tveimur akreinum og um það fara að meðaltali tæplega 50 þús. bílar á sólarhring. Íbúar eru í auknum mæli búnir að gefast upp á notkun hringtorgsins og hefur það leitt af sér aukinn og óæskilegan umferðarþunga og hraða innan íbúðahverfa. Hafnarfjarðarvegurinn klýfur umferðaræðar í Garðabæ. Þar hafa verið settar fram hugmyndir um að Hafnarfjarðarvegur verði settur í lokaðan stokk allt frá Hraunsholti að Litlatúni en að gamli Hafnarfjarðarvegurinn haldi sér sem innanbæjarvegur í Garðabæ.

Þær lausnir sem virðast uppi á borðinu af hálfu stjórnvalda og Vegagerðarinnar eru ófullnægjandi miðað við stokkalausnirnar. Hér verður að hugsa í varanlegum lausnum í stað þess að vera í sífelldum (Forseti hringir.) bútasaumi og bráðabirgðalausnum. Þessar framkvæmdir þola ekki lengur bið. Í þær verður að ráðast (Forseti hringir.) og í kjölfarið er hægt að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) að hefja án tafar undirbúning að þessum framkvæmdum og setja í forgang.