148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. „Ég hef þá teóríu“, segir séra Jón prímus við Umba í Kristnihaldi undir jökli, „að vatn sé gott.“ Við erum rík þjóð af auðlindum, Íslendingar, og vatnið er þar á meðal. Ég vil nota þetta tækifæri og vekja athygli á nokkrum fyrirspurnum sem ég hef beint til ráðherra um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu.

Svör eru tekin að berast og kennir þar ýmissa grasa. Fram hefur komið að ekki er vitað um það magn eiturefna sem ekið er um Suðurlandsveg, yfir Sandskeið og Hellisheiði, fram hjá og í grennd við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins í Heiðmörk. Eiturefnin sem hér um ræðir eru eldsneyti, tilbúinn áburður, ýmis eiturefni sem notuð eru í atvinnustarfsemi og annar hættulegur farmur. Ekki er vitað um árlegan fjölda ferða og hvað flutningatækin eru mörg. Þá hefur komið fram að ekki er vitað um magn eiturefna sem flutt eru um íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu.

Umferð bifreiða og í grennd við vatnsverndarsvæðin hefur vaxið hröðum skrefum. Ráðherra hefur í svari greint frá því að samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi engar rannsóknir verið gerðar á áhrifum á gæði neysluvatns af gúmmíkurli frá hjólbörðum bifreiða og af öðrum mengandi efnum sem fylgja umferð bifreiða í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins.

Ég hlýt að spyrja: Hvaða skýringar eru á því að ekki eru gerðar viðeigandi rannsóknir á vatnsgæðum í ljósi ofangreindrar mengunarhættu? Eitt óhapp eða slys í nálægð við vatnsbólin gæti dregið langan slóða á eftir sér. Okkur ber rík skylda til að fara með fyllstu gát og tryggja fólki hreint vatn og heilnæmt.